Gengi yensins hefur styrkts talsvert í kjölfar yfirlýsingar bankastjóra japanska seðlabankans, Toshihiko Fukui, um að senn ljúki sjö ára tímabili verðhjaðnana þar í landi, segir greiningardeild Landsbankans.

Þetta gæti skapað svigrúm fyrir bankann til þess að hækka nafnvexti en þeir hafa legið við 0% frá því 2001 og voru afar lágir meirihluta tíunda áratug síðustu aldar.

Það væri merkilegur áfangi ef vaxtahækkanir tækjust án alvarlegra efnahagslegra afleiðinga þar sem Japanir hafa mátt glíma við verðhjöðnun og vandamál henni tengd alveg frá hruni á verðbréfamarkaði í lok níunda áratugar nýliðinnar aldar.

Fukui sagði að bankinn myndi þegar í stað draga úr þeim aðgerðum sem beitt hefur verið til að skapa þenslu, en seðlabankinn hefur haldið úti stöðugu útstreymi peninga í töluverðan tíma í von um verðbólgu.

Vísitala neysluverðs hefur nú hækkað tvo mánuði í röð og er það í fyrsta sinn frá því í apríl 1998 sem það gerist. Japanska hagkerfið, sem er það næststærsta í heiminum, hefur vaxið á góðum hraða að undanförnu og er hagvöxtur hærri en Bandaríkjunum og stærstu hagkerfum evrusvæðisins.

Stærsta vandamálið tengt verðhjöðnun hefur verið svokölluð lausafjárgildra en vegna þess að raunvextir eru hærri en nafnvextir má segja að peningahagstjórn landsins hafi verið tekin úr sambandi, segir greiningardeildin.

Við nafnvaxtastigið 0% er ómögulegt fyrir bankann að lækka vexti og ráðast því raunvextir af verðlagi í stað stýrivaxta seðlabankans.

Þegar nafnvextir eru engir og verðhjöðnun á markaði eru raunvextir jákvæðir þrátt fyrir að engir vextir greiðist af lánum.