Ríkisstjórnin mun funda með aðilum vinnumarkaðarins núna kl. 9 og verður þar fjallað um stöðuna í kjaraviðræðum. Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag en eins og fram kom á vb.is í gærmorgun hafa Samtök atvinnulífsins neitað að hefja lokaatlögu að gerð kjarasamninga uns stór mál sem stranda á ríkisstjórninni verða leyst.

Í frétt Morgunblaðsins er sagt líklegt að þjarmað verði að stjórnvöldum á fundinum og haft eftir Vilmundi Jósefssyni, formanni SA, að eftir eigi að koma skikka á heilan bunka af málum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir markmið fundarins vera að fá úr því skorið hvort stjórnvöld hafi áhuga á lausn málsins en hann hafi fáar vísbendingar fengið um það. Gylfi segir mikla óþreyju komna upp í sinni fylkingu.