Sepp Blatter, formaður FIFA, tilkynnti rétt í þessu að hann hygðist boða til nýrra kosninga um kjör formanns FIFA. Þetta kom fram á blaðamannafundi. The Guardian greinir frá. Aukafundur, þar sem kjörið fer fram, verður haldinn einhvern tímann á bilinu desember 2015 til mars 2016.

„Ég mun boða til aukafundar til að hægt sé að kjósa formann í minn stað. Ég mun ekki halda áfram. Ég er núna laus undan klyfjum næstu kosninga og er í aðstöðu til að einbeita mér að mikilvægum breytingum. Í mörg ár hefur verið kallað eftir þeim, en þær hafa ekki dugað hingað til," er haft eftir Blatter.

Hann sagði jafnframt að tímabært væri að koma á hámarkslengd kjörtímabila, en Blatter var fyrst kjörinn árið 1998. „Ég hef barist fyrir þessum breytingum, en þær hafa mætt mótstöðu," bætti hann við.

„Eins og formaðurinn hefur greint frá verður ráðist í grundvallarbreytingar á því hvernig stofnunin er uppbyggð," er haft eftir Domenico Scala, formanni endurskoðunar- og reglunefndar FIFA. „Reglurnar verða til þess að einstaklingar geti ekki nýtt sér stofnunina í eigin þágu, á kostnað fótboltans."