Verðþróun á sjávarafurðum hefur verið hagstæð undanfarið ár og virðist sem óvenju mikið af birgðum frá því fyrr á árinu hafi verið flutt út í september. Greining Íslandsbanka bendir á að útflutningur á sjávarafurðum skýri mestan afgang af vöruskiptum sem sést hafi í einum mánuði frá í maí í fyrra.

Afgangur af vöruskiptum nam 15,5 milljörðum króna í september, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Útflutningur nam 62,5 milljörðum króna á meðan vörur voru fluttar inn fyrir 46,9 milljarða króna.

Útflutningur jókst um 20% að raungildi á milli ára en innflutningur um tæp 15%.

Greining Íslandsbanka bendir á að af verðmæti heildarútflutnings hafi sjávarafurðir verið fluttar út fyrir 28,6 milljarða króna í mánuðinum, eða rúm 45% af verðmæti heildarútflutnings í mánuðinum. Verðmæti sjávarafurða hefur aldrei verið meira, samkvæmt upplýsingum Greiningar Íslandsbanka. Þá var útflutningur á áli með meira móti í september en alla jafna.

Afgangur af vöruskiptum á fyrstu níu mánuðum ársins nam 81,5 milljörðum króna og er það 8% samdráttur í krónum talið en á sama tíma í fyrra. Þá nam afgangurinn 88,2 milljörðum króna.