Lánareglur hjá gamla Landsbankanum fyrir hrun voru aðrar og rýmri en hjá öðrum bönkum. Þau Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður fyrirtækjasviðs, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, eru sakborningar í svokölluðu Imon-máli embættis sérstaks saksóknara og ákærð fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Aðalmeðferð í málinu hófst í héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Málið snýst um tæplega níu milljarða króna lánveitingu til tveggja félaga rétt áður en gamli Landsbankinn fór á hliðina. Í öðru tilvikinu var félaginu Imon, sem var í eigu Magnúsar Ármanns, lánaðir 5 milljarðar króna til kaupa á rúmlega 4% hlut í Landsbankanum. Lánið var veitt þremur dögum áður en skilanefnd tók lyklavöldin yfir í bankanum. Í hinum tilvikinu fékk félagið Azalea Resources, sem er í eigu finnska fjárfestisins Ari Salmivouri, 3,8 milljarða króna. Sá er viðskiptafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem var annar tveggja kjölfestufjárfesta Landsbankans.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Sigurjóni að hann myndi taka ákvörðunina aftur ef hann væri í sömu aðstöðu í dag.

Hinir ákærður neituðu að hafa brotið bæði lög og reglur bankans.