Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sér enga ástæðu til að flýta landsfundi flokksins og segir forystu hans njóta mikils stuðnings flokksmanna. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV .

Ljóst er að meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins ríkir nánast einhugur um að Bjarni Benediksson haldi áfram í starfi sínu sem fjármálaráðherra, en einungis sjö prósent þeirra vilja að hann segi af sér samkvæmt nýlegri könnun Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Þá vilja 78 prósent að Ólöf Nordal gegni áfram embætti innanríkisráðherra.

„Það eru spennandi tímar framundan og ég held að staðan sé góð og það er góð stemmning meðal Sjálfstæðismanna. Ég var nú hér með formanninum og ritara flokksins á kjördæmisþingi á Norðausturlandi, þar sem helstu trúnaðarmenn flokksins af Austurlandi og Norðurlandi eru saman komnir, og þar eru menn komnir í startholurnar í kosningabaráttu og það er verulega góð stemmning meðal flokksmanna,“ sagði Þórður í samtali við RÚV.

„Við héldum afar velheppnaðan landsfund í byrjun nóvember og ég sé ekki að það sé nein sérstök ástæða til að halda nýjan landsfund. Það mikilvæga í þessu er það að forysta flokksins hefur gífurlegan stuðning meðal Sjálfstæðismanna. Það hefur engin óskað eftir því að aðrir liðir verði teknir upp (á miðstjórnarfundinum), en hann er klukkan fimm í dag og það er sjálfsagt að ræða efni fundarins eftirá.“