*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 4. mars 2017 13:10

Sér ekki eftir ákvörðuninni

Þorsteinn Víglundsson telur að jafnlaunavottun myndi ekki vera íþyngjandi eða kostnaðarsöm innleiðing fyrir fyrirtæki.

Alexander Freyr Einarsso
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Þorsteinn Víglundsson sér ekki eftir þeirri áhættu að hafa yfirgefið framkvæmdastjórastarf Samtaka atvinnulífsins (SA) til að reyna fyrir sér í stjórnmálum. Hann hefur nú verið félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir hönd Viðreisnar í einn og hálfan mánuð og kann vel við sig í nýju embætti. Þorsteinn hafði verið framkvæmdastjóri SA frá árinu 2013 þegar hann ákvað að skipta yfir í stjórnmálin. Áður hafði hann verið framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda og þar áður forstjóri BM Vallár í hartnær áratug. Þorsteinn kann vel við sig á nýjum vettvangi og segir mörg mikilvæg verkefni fram undan.

Hvernig leggst nýja starfið í þig? Ertu ánægður með að hafa skipt um vettvang?

„Þetta er mjög spennandi, ég hugsaði mig mjög vandlega um áður en ég ákvað að söðla um og fara í pólitík. Ég var í mjög góðu og skemmtilegu starfi á spennandi vettvangi með fjölmörg spennandi verkefni fram undan, vinnandi með einstaklega góðum hópi hjá samtökunum. Það var því töluverð ákvörðun að fara inn á vettvang stjórnmálanna. En það hefur heillað mig lengi og mér hefur lengi þótt margt betur fara í stjórnmálum og að umræðan mætti vera vandaðri og ígrundaðri. Stundum verður maður þá að fylgja sannfæringunni og taka slaginn sjálfur, ég sé ekkert eftir því. Þetta er mjög spennandi starfsvettvangur og gríðarlega viðamikið ráðuneyti. Ég held að í félagsmálahluta ráðuneytisins sé um það bil fjórðungur heildarútgjalda ríkissjóðs án vaxtagjalda. Það fylgir því auðvitað mikil ábyrgð að hér sé vel haldið á málum og þeim málaflokkum sem hér eru sinnt mjög vel.“

Þú gast auðvitað ekki vitað það þegar þú fórst út í stjórnmál að þú yrðir ráð­ herra, og síður í hvaða ráðuneyti?

„Alls ekki, það má segja að þetta hafi verið brjálæði á miðjum aldri að segja upp vel launuðu starfi fyrir fullkomið óöryggi, því maður hefur auðvitað enga vissu fyrir því hvort maður komist inn á þing, hvað þá í ríkisstjórn eða ráðherraembætti. En það gekk svosem ágætlega eftir allt, þannig að ég get ekki kvartað. Þetta var auðvitað áhætta, en að lokum mat ég það þannig að ég gæti gert meira gagn í stjórnmálum en í mínu fyrra starfi.“

Ekki jafnræði á vinnumarkaði

Mikið hefur verið gert úr því að ákveðnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hyggist ekki styðja frumvarp Viðreisnar um jafnlaunavottun. Hvernig horfir það við þér?

„Ég hef verið alveg rólegur yfir yfirlýsingum þessara tveggja þingmanna sem lýst hafa andstöðu sinni við frumvarpið. Hafandi sjálfur starfað á þeim vettvangi sem þeir horfa hvað mest til, þ.e.a.s. í atvinnulífinu, þá get ég alveg skilið sjónarmið þeirra um íþyngjandi reglugerðir, aukið eftirlit hins opinbera o.s.frv., sem ég er sjálfur andsnúinn. Ef við ætlum að vera með samkeppnishæft atvinnulíf þurfum við að tryggja því eins hagstæð rekstrarskilyrði og kostur er og að regluverk og eftirlit sé eins lítt íþyngjandi og mögulegt er. En það er mikilvægt að benda á að hér er um að ræða mál sem er í stjórnarsáttmálanum og kemur inn á þing sem mál ríkisstjórnarinnar. Málið er í undirbúningi innan ráðuneytisins og í samráðsferli við aðila vinnumarkaðar.

Ég hef sagt það skýrt að ég tel þetta vera mjög mikilvægt mál og ég held að þetta verði ekkert áhrifaminna heldur en lög um kynjakvóta á sínum tíma, lög sem einmitt sýndu okkur að stundum þarf að grípa inn í.

Ef við skoðum nýlega rannsókn sem velferðarráðuneytið ásamt aðilum vinnumarkaðarins stóð að, þar sem skoðuð var launadreifing 70 þúsund einstaklinga á vinnumarkaði út frá gögnum sem Hagstofan hefur yfir að ráða, og ráðist var í greiningu á öllum þeim málefnalegu stýribreytum sem gátu skýrt launamun kynjanna, stóð eftir 7-8 prósenta óútskýrður launamunur. Ef við horfum lengra er heildarlaunamunur kynjanna um 20 prósent og lífeyristekjur kvenna eru þriðjungi lægri en lífeyristekjur karla, þannig að það er gríðarlegur aðstöðumunur sem kynin búa við á vinnumarkaði. Kynin byrja yfirleitt með nokkuð sambærileg kjör en það gliðnar heldur í sundur þegar fram á líður. Þá er ekki hægt að tala um að við búum við fullt jafnræði á vinnumarkaði.“

Arftaki þinn hjá SA sagði samtökin ekki ánægð með frumvarpið. Hafandi verið framkvæmdastjóri SA, hefðir þú sett spurningar við frumvarpið ef þú sætir þeim megin borðsins?

„Ég var kominn á þessa skoðun löngu áður en ég ákvað að hætta hjá samtökunum og fara yfir í pólitík yfirhöfuð. Ég held það sé mikilvægt að hafa í huga í tengslum við gagnrýni samtakanna og það samráðsferli sem er í gangi, að við höfum sagt mjög skýrt að við teljum jafnlaunavottunina afar mikilvægt tæki en við erum hins vegar fullkomlega opin fyrir því að eiga samtal við atvinnulífið um hvernig þetta sé gert með sem minnst íþyngjandi hætti. Við höfum verið opin fyrir leiðum til að einfalda fyrirtækjum aðlögunina, þróa einfaldari útfærslur fyrir minni fyrirtæki eða innleiða þetta í smærri áföngum.

Ég geri ráð fyrir því að niðurstaðan verði innleiðing þar sem stærstu fyrirtækin ríða á vaðið og verða einhvers konar múrbrjótur fyrir þau smærri þegar kemur að því að þróa aðferðafræðina í kringum þetta og að þetta verði ekki mjög íþyngjandi eða kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki þegar upp er staðið.

Nánar er rætt við Þorstein Víglundsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Víglundsson Þorsteinn