Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segist ekki sjá fram á einfaldara líf fyrir eftirlitið eða fyrirtæki í landinu. Regluverkið muni halda áfram að stækka næstu árin.

Hver eru stærstu verkefni FME í augnablikinu?

„SREP-matsferli fjármálafyrirtækja eru alltaf stór og tímafrek. Öll vinna í kringum fjármálastöðugleika er mikil og krefjandi, sem og verkefni í sambandi við hæfismat og stjórnarháttamælingar.

Svo eru að koma ný þjóðhagsvarúðartæki sem gert var ráð fyrir í lögunum um fasteignalán til neytenda. Það eru svokölluð veðsetningarhlutföll og greiðslubyrðarhlutföll. Þessar reglur takmarka skuldsetningargetu einstaklinga og skapa nýtt útlánamódel.

Annað sem er búið að leggja mikla vinnu í að undirbúa eru lög um endurskipulagningu og slit á fjármálafyrirtækjum. Við eigum von á að til verði frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi á þessu ári. Tilskipunin fjallar um áætlun um viðbúnað sem fjármálafyrirtæki þurfa að semja og virkja ef álag skapast í starfsemi þeirra, inngrip eftirlitsstofnana í starfsemi fjármálafyrirtækja og skilameðferð ef talið er nauðsynlegt að eftirlitsaðili eða sjálfstætt skilavald taki yfir eða grípi inn í starfsemi fjármálafyrirtækja. Markmiðið er að viðhalda kerfislega mikilvægum rekstri, takmarka áhrif falls þeirra á fjármála- og hagkerfið, og tryggja að fjármálafyrirtæki geti tekist á við áföll án stuðnings frá skattgreiðendum.

Aðrar stórar breytingar fram undan er innleiðing á fjölmörgum gerðum um verðbréfamarkaðinn.“

Þannig að regluverkið á eftir að stækka og eftirlitið á eftir að aukast?

„Já. Við sjáum ekki fram á einfaldara líf, hvorki fyrir fyrirtæki á fjármálamarkaði né eftirlitið.“

Vogunarsjóðir ágirnast bankana

Hverjar eru áskoranir fjármálakerfisins til lengri tíma litið?

„Stærsta áskorunin er að byggja upp traust á fjármálakerfinu og þeim aðilum sem því tengjast. Könnun Gallup frá því í mars síðastliðinn sýnir að enn ríki verulegt vantraust á kerfinu. Uppbygging trausts veltur á því hvernig samkeppnismál, neytendamál, stjórnarhættir og upplýsingatækni eiga eftir að þróast.

Við vitum ekki hvernig samkeppnin í fjármálakerfinu mun þróast, en við vitum hvernig hún er núna. Fákeppni hefur verið að aukast sem og samþjöppun á eignarhaldi. Aðalorsökin er uppsöfnuð fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna innan fjármagnshafta, en það hefur leitt til þess að þeir eru nú fyrirferðarmiklir í eignarhaldi fyrirtækja og í húsnæðislánum, ásamt því að fjármagna sjóði og banka. Það eru því flókin hagsmunatengsl til staðar sem draga úr samkeppni og skilvirkri verðmyndun á verðbréfamarkaði. Þróun samkeppnismála veltur að miklu leyti á fyrirhugaðri sölu ríkisins á eignarhlut sínum í bönkunum, sem gæti þó tekið mörg ár. Lífeyrissjóðirnir hafa sýnt því áhuga að kaupa virka hluti í bönkunum, en það myndi flækja stöðuna enn meira.

Æskilegast væri að fá virta langtímafjárfesta inn í bankana til að gera samkeppnina sýnilegri á markaði. Aflétting hafta gæti einnig opnað fjármálakerfið fyrir aukinni erlendri samkeppni, þar sem evrópskur fjármagnsmarkaður býr við sama regluverk og sá íslenski. Það myndi draga úr þessari samþjöppun. En í hinum vestræna heimi eru virtir langtímafjárfestar einfaldlega ekki að fjárfesta í bönkum. Þeir eru að losa sig úr slíkum fjárfestingum. Á sama tíma er áhættusamt fyrir ríkið og skattgreiðendur að sitja uppi með svo stóran hluta fjármálakerfisins í höndunum.

Einu aðilarnir sem virðast hafa áhuga á því að kaupa banka eru sjóðir, t.d. vogunarsjóðir, sem leggja mikið á sig til að leyna því hverjir þeir eru í raun og veru. Þetta er mikið púsluspil og það er alls ekki einfalt að vinna úr þessu.

Nefna má fleiri áskoranir. Aukin erlend samkeppni við afléttingu hafta kallar á aukið eftirlit. Lífeyrissjóðirnir koma til með að stækka áfram næstu 20 árin, en það gæti reynt á bakábyrgð hins opinbera. Mikilvægt er að draga úr vantrausti og óvissu neytenda og fjárfesta á fjármálamarkaði.

Upplýsingatækni vegur síðan sífellt þyngra í þjónustuframboði fjármálafyrirtækja og nýjum tegundum fjármálaþjónustu mun fylgja aukið eftirlit. Netöryggi er því sameiginleg áskorun alls fjármálakerfisins, þar sem slík tækni felur í sér víðtækari söfnun og hagnýtingu upplýsinga en áður og gerir fjármálakerfið viðkvæmara fyrir tölvuárásum en áður.“

Hvaða skilaboðum myndir þú vilja koma áleiðis til almennings og fyrirtækja?

„Fjármálakerfið í dag stendur traustum fótum. Það er mjög flókið að setja sig inn í það hvað það hefur margt breyst í raun og veru. Þeir sem stýra fyrirtækjum á fjármálamarkaði sýna langflestir góðan vilja í verki til að vera með lögmæta og heiðarlega starfsemi. En samt sem áður er svo lífsseig mýtan um að það hafi ekkert breyst frá hruni. Það hefur ótrúlega margt breyst og við erum að vinna hörðum höndum að því að stoppa upp í öll göt.

Það er ekki þar með sagt að við getum lofað því að það verði aldrei aftur áföll hér á landi. Það sem framtíðin ber í skauti sér er óvíst en sagan segir að það muni koma áföll. Það þarf að vera eftirlit og það þarf að fylgja viðskiptafrelsinu, því sagan hefur sýnt að eftirlitsstarfsemi er ekki óþörf.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .