James Gorman forstjóri Bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanley segir að bankinn sjái fram á stórt tækifæri í Sádí-Arabíu eftir að ríkisstjórn landsins greindi frá áætlunum sínum um að setja ríkisolíufyrirtæki landsins á markað. Hyggst ríkið selja hlutabréf í fyrirtækinu fyrir 100 milljarða dollara.

Ef að útboðinu verður myndi það verða langstærsta hlutfjárútboð sögunnar og fjórfalt stærra en hlutafjárútboð Alibaba árið 2014. Það er því mikið undir fyrir fjárfestingabanka að ná útboðinu til sín.

Sagði Gorman á fjármálaráðstefnu í New York að hann hafi undanfarið eytt töluverðum tíma í Sádí-Arabíu. Morgan Stanley hefur nú þegar látið til sín taka í Sádí Arabíu en fyrirtækið opnaði skrifstofur þar árið 2007.

Áætlanir stjórnvalda í Sádí-Arabíu eru hluti af stefnu stjórnvalda til að auka fjölbreytni í efnahagslífi landsins fyrir árið 2030.