Jólin eru algjörlega niðurnjörvuð í hefðum hjá Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, eins og hann sjálfur segir. Hluta af jólunum er ávallt varið fyrir norðan á Grenivík þar sem hann er ættaður. Aðfangadagur er þó haldinn hátíðlega sunnan heiða þar sem fjölskyldan kemur saman. „Við erum heima á aðfangadag með tengdamóður, mági mínum og konu hans. Jóladagur er svo sloppadagur og bækur lesnar.“

Áður voru rjúpurnar helsti jólamaturinn á heimilinu en yngri meðlimir fjölskyldunnar hafa haft áhrif þar á. Björgólfur sér hins vegar sjálfur um alla matargerð á jólunum. „Ég hef séð um matinn á jólunum frá A til Ö. Það er mitt fag þá. Við höfum aðeins leikið okkur með það hvað er á boðstólum. Það er reyndar þannig að yngri dóttir mín er hrifin af rjúpu og fannst jólin ekki koma nema það væri rjúpa. En sú eldri var ekki alveg á því þannig að við höfum farið í purusteik og hamborgarhrygg. Síðan er það alltaf hangikjötið á jóladag. Við gerum líka laufabrauð að gamla norðlenska siðnum og erum með það á aðfangadag.“ Hverri veislumáltíð fylgir svo eftirréttur en Björgólfur gerir heimalagaðan ís eftir eigin uppskrift.

Svið á gamlárskvöld

Þegar komið er norður milli jóla og nýárs fer mestur tími í að hitta stórfjölskylduna og gamla vini. Þá kemur fjölskyldan saman í húsi foreldra Björgólfs á gamlárskvöld.

„Þá koma allir saman og blanda saman veislumat. Þá kemur inn kalkúnn og hangikjötið er alltaf á sínum stað. Svo er alltaf gott að fá ný svið á gamlárskvöld, það er nú eins og það er. Bróðir minn tók upp á þessu einhvern tímann og það féll vel í kramið. Þegar menn fá sér staup og aðeins meira jafnvel er gott að hafa köld svið á borðinu og kaldar kartöflur. Ekki að maður hafi gott af því en þetta gerir maður þegar líður á kvöldið, þá fer maður í þann gír.“

Nánar er spjallað við Björgólf í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .