*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Erlent 8. apríl 2021 10:49

Sér um öryggisþjálfun fyrir Mondelez

Íslenska fyrirtækið AwareGO mun sjá um netöryggisþjálfun fyrir matvörusamsteypuna Mondelēz International næstu þrjú árin.

Ritstjórn
Ragnar Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri AwareGO.
Aðsend mynd

Matvörusamsteypan Mondelēz International, sem framleiðir meðal annars Toblerone, Oreo, Cadbury- og Milka-súkkulaði, Lu-kex og Philadelphia-rjómaost, hefur valið íslenska netöryggisfyrirtækið AwareGO til að sjá um netöryggisþjálfun starfsmanna sinna um allan heim. Samningurinn er til þriggja ára með möguleika á framlengingu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

AwareGO framleiðir örstutt netöryggismyndbönd og hefur þróað eigin kennsluhugbúnað sem á að hámarka árangur fræðsluherferða sem kenna starfsmönnum að varast netsvik. Mondelēz International notar nú bæði öryggismyndefni og hugbúnað AwareGO til að bæta öryggismenningu innan samsteypunnar og draga úr hættunni á netárásum sem sífellt færast í aukana. 

AwareGO segir að Mondelēz hafi valið kennsluhugbúnaðinn sinn þar sem hann geti náð til fjölda starfsfólks á stuttum tíma og þykir hann einfaldur í notkun. Þar sem um örmyndbönd er að ræða komi þjálfunin ekki niður á framleiðni þar sem starfsfólk þarf ekki að sitja löng námskeið og getur sótt fræðsluna þegar þeim hentar.  

„Það er heiður og í raun magnað að svona stór samsteypa á borð við Mondelēz velji íslensk myndbönd með íslenskum leikurum, í íslensku umhverfi til að þjálfa sitt starfsfólk í netöryggismálum á heimsvísu. Okkar sýn hefur alltaf verið að gera heiminn að öruggari stað þegar kemur að netöryggismálum og einbeita okkur að því að valdefla starfsfólk fyrirtækja og stofnana til að taka netöryggi í sínar hendur. Aðferðir okkar fengu greinilega góðan hljómgrunn hjá Mondelēz þar sem þau völdu okkur úr hópi fjölda annarra þekktra netöryggisfyrirtækja til að sjá um þjálfunina hjá sér,” segir Ragnar Sigurðsson framkvæmdastjóri AwareGO.  

Mondelēz International er einn stærsti matvöruframleiðandi heims með um 80.000 starfsmenn í yfir 80 löndum. Vörur þeirra eru seldar í yfir 150 löndum. Heildartekjur samsteypunnar árið 2020 voru 27 milljarðar Bandaríkjadala. 

„Við völdum AwareGO vegna þess að hugbúnaðurinn þeirra hjálpar okkur að ná til starfsfólksins okkar og gera netöryggisvitund áhugaverðari. Hjá AwareGO snýst allt um mannlega þáttinn og þeim tekst að koma mikilvægustu atriðunum til skila og hvernig þau skipta máli í daglegu lífi fólks. Fólkið okkar hefur tekið myndböndunum mjög vel og við tökum eftir því að þjálfunin er að skila árangri,” er haft eftir Nikolay Betov, yfirmanni upplýsinga- og netöryggismála hjá Mondelēz International.