Áhrif lægra vaxta og rýmri veðheimilda á fasteignalánum eru nú að koma fram á fasteignamarkaðinum. Ljóst er að fasteignaverð hefur hækkað verulega samkvæmt vísitölu íbúðarhúsnæðis eða um 14% síðastliðna 12 mánuði eins og bent er á í Hálffimm fréttum KB banka í dag. Þar er bent á að það sem vekur þó einkum athygli er hve verð á sérbýli hefur tekið við sér en það hefur hækkað um 21,5% síðastliðna 12 mánuði en verð fjölbýli hefur hækkað um 11,5% á sama tíma.

"Hér er því um framvindubrot að ræða en á undanförnum árum virðist fasteignaverð í fjölbýli og sérbýli nokkurn veginn þróast í takt sem má sjá á mynd hér til hliðar. Þessi þróun ætti ekki að koma á óvart en útspil bankana í lánamálum nú á haustmánuðum hefur leitt til þess að fjármögnun á dýrari eignum er auðveldari. Þetta hlýtur að leiða til aukinnar sóknar eftir gæðum, stærð og staðsetningu í fasteignakaupum. Það þýðir að lægri vextir munu hækka verðið mest á einbýli og eignum miðsvæðis - eða á eftirsóttum stöðum - eins spáð var í sérriti Greiningardeildar um þróun fasteignamarkaðar frá september síðastliðnum," segir í Hálffimm fréttum.