Séreignarsparnaður jókst um 9% eða um 25,9 milljarða króna frá árslokum 2009 til ársloka 2010. Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila hefur vaxið úr 30,6 milljörðum króna í árslok 1999 í 314,2 milljarða króna í árslok 2010 eða um 284 milljarða króna á rúmum áratug.

Stærstur hluti séreignarsparnaðar er í vörslu lífeyrissjóða sem voru hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 eða 151,8 milljarðar í árslok 2010. Í kjölfar þessara sjóða koma vörsluaðilar aðrir en lífeyrissjóðir með 123,7 milljarða í vörslu í árslok 2010 og að lokum almennir lífeyrissjóðir með 38,9 milljarða í vörslu.

Greiddu út 23 milljarða

Útgreiddur lífeyrir var 15,5 milljarður árið 2009 en útgreiðslur lækkuðu í tæpa 8 milljarða á árinu 2010. Auk þess voru um 14,7 milljarðar greiddir út í samræmi bráðabirgðaákvæði sem heimilar útborgun séreignarsparnaðar samanborið við tæplega 22 milljarða á árinu 2009. Samanlagt námu útgreiðslurnar tæplega 23 milljörðum 2010 samanborið við 37,5 milljarða 2009.