*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 19. september 2021 16:05

Séreignarúrræðið hraðar verulega endurgreiðslu

Lágmarksnotkun séreignarúrræðisins leyfir velflestum jafngreiðslulántökum að taka fram úr jöfnum afborgunum.

Júlíus Þór Halldórsson
Haraldur Guðjónsson

Til viðbótar við mun hraðari eignamyndun jafngreiðslulána en fyrir nokkrum árum eykur ráðstöfun séreignasparnaðar inn á höfuðstól fasteignalána eignamyndun lántaka verulega á skuldahliðinni.

Launþegar geta sem kunnugt er ráðstafað allt að 4% launa sinna skattfrjálst inn á höfuðstól fasteignalána, og fengið því til viðbótar 2% mótframlag frá atvinnurekanda. Slík ráðstöfun hefur hlutfallslega mest að segja fyrir jafngreiðslulán á háum vöxtum, þar sem afborgun inn á höfuðstól er mjög lítil.

Til viðbótar við hraðari höfuðstólslækkun jafngreiðslulána þýðir hún hins vegar, þrátt fyrir hlutfallslega minni áhrif, að eignamyndun heimilanna verður enn meiri. Íslandslán á 1,5% vöxtum (verðtryggðum þá að sjálfsögðu, en yfir áratugalánstíma er heppilegra að horfa framhjá verðbólgu og á rauntölur) sem greiddar eru 20 þúsund krónur aukalega inn á höfuðstólinn á á mánuði – 2% eigið framlag auk 2% frá vinnuveitanda af 500 þúsund króna tekjum – lækkar um það bil jafn hratt og sambærilegt lán með jöfnum afborgunum (án séreignargreiðslu) á fyrri helmingi lánstímans, og tekur fram úr því á þeim seinni.

Taka skal fram að úrræðið er tímabundið; núgildandi lög renna út sumarið 2023. Það hefur hins vegar verið framlengt oftar en einu sinni, og erfitt gæti reynst pólitískt að leyfa því að renna út úr því sem komið er.

Síðastnefnda niðurstaðan á við jafnvel með 350 þúsund króna tekjur, og breytist sáralítið þó vextir hækki í 2%. Eignamyndun Íslandslántaka í dag sem nýta sér séreignarúrræðið að einhverju leyti (sem kostar þá aðeins um þriðjung af þeirri upphæð sem fer inn á lánið aukalega) er þannig sambærileg þeirri sem lántakar með jafnar afborganir fengju að njóta án séreignarleiðarinnar.

Séu samanlagðar tekjur lántaka milljón á mánuði fyrir skatt, og séreignarúrræðið nýtt að fullu, verður mánaðarleg umframgreiðsla 60 þúsund, og jafnvel Íslandslán búið að lækka um meira en helming innan 15 ára, og ríflega 75% þegar lánstíminn er hálfnaður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.