*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 5. maí 2021 15:53

Geta áfram nýtt séreign skattfrjálst

Bjarni Benediktsson hefur lagt fram nýtt frumvarp um lengingu heimildar til að greiða skattfrjálst inn á höfuðstól íbúðalána.

Snær Snæbjörnsson
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti í dag fyrir framlengdri heimild um notkun séreignarsparnaðs skattfrjálst inn á höfuðstól húsnæðislána fram á mitt ár 2023. Núverandi heimild, sem fyrst var sett inn í lög um mitt ár 2014, rennur út í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Reiknað er með því að hátt í 24 milljarðar króna verði greiddir til viðbótar inn á höfuðstól íbúðalána verði frumvarpið samþykkt. Um 60 þúsund manns hafa nú þegar nýtt sér úrræðið frá því að það var sett í lög og hafa um 160 milljarðar króna verið notaðir til að greiða inn á húsnæðislán einstaklinga.

"Úrræðið hefur gefist vel, reynst mikil kjarabót fyrir þúsundir Íslendinga og stuðlað að hraðari eignamyndun einstaklinga og fjölskyldna á húsnæðismarkaði. Með tilliti til þessa er taldi ég rétt að koma til móts við óskir fjölda einstaklinga og hagsmunasamtaka um framlengingu þess, og ég treysti á að málið fái skjóta afgreiðslu á Alþingi," segir Bjarni Benediktsson í tilkynningunni.