Úttektir fólks á séreignasparnaði hefur farið í meiri mæli til einkaneyslu en til þess að greiða niður skuldir, að sögn Daníels Svavarssonar, forstöðumanns Hagfræðideildar Landsbankans. Hann benti á það við kynningu á nýrri hagspá deildarinnar, að þessar úttektir ásamt atvinnuvegafjárfestingu og áhrifum kjarasamninga eigi þátt í því að hagvöxtur verði 3,2% á þessu ári eftir tveggja ára samdráttarskeið.

Daníel benti á að ástæðan fyrir því að atvinnuvegafjárfesting muni aukast þá að búið sé að laga efnahagsreikninga margra fyrirtækja og sé uppsöfnuð fjárfestingarþörf mikil eftir samdráttarskeiðið.

Strax á næsta ári mun draga úr áhrifum úttekta á séreignasparnaðinum og kjarasamningum, draga úr einkaneyslu og vöxtur efnahagslífsins því ekki verða jafn mikill og í ár.