Séreignarsparnaður landsmanna nemur um 330 milljörðum og hefur vaxið um 75 milljarða frá hruni þrátt fyrir að greiddir hafi veri út um 50 milljarðar á sama tíma vegna sérstakrar útgreiðslu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en þar segir að langflestir hafi haldið áfram að greiða í séreignarsjóði þrátt fyrir að hafa nýtt sér heimild til sérstakrar útgreiðslu sparnaðar eftir hrunið. Aðeins 1.224 færri greiddu í slíka sjóði árið 2010 en árið á undan, og voru þá 62.251, samkvæmt upplýsingum Landssamtaka lífeyrissjóða. Heildareignir landsmanna í séreignarsparnaði hafi því aukist um tugi milljarða frá því í mars 2009, þegar sérstök heimild til útgreiðslu var gefin með sérákvæði í lögum.