Sérfræðingahópur sem fenginn var til að ráðleggja framkvæmdastjórn ESB um skipulag bankastarfsemi sagði í dag að aðskilja þyrfti viðskipta- og fjárfestingastarfsemi banka. Þannig þyrfti að skilja á milli þess hluta sem færi með áhættusöm viðskipti og fjárfestingar og þess hluta sem færi með innistæður almennings, til að koma í veg fyrir að fjármálahrun eins og varð fyrir fjórum árum síðan endurtaki sig.

„Við þurfum að binda enda á þetta kerfi þar sem hagnaður er einkaeign en kostnaðurinn fellur á almenning,“ sagði seðlabankastjóri Finna á fjölmiðafundi um málið en hann fór fyrir ráðgjafahópnum. Hópurinn samanstóð af fræðimönnum, bankamönnum og talsmönnum neytenda og hefur verið starfandi síðan í nóvember á síðasta ári.

Nú tekur við umræða um tillögur ráðgjafahópsins innan vébanda Evrópusambandsins áður en tillögurnar verða útfærðar í lögum. Samkvæmt heimasíðunni EU observer eru skiptar skoðanir um þessar tillögur og ekki allir sammála um að þær verði til góðs fyrir bankakerfið.

Það sama má segja um aðskilnaðar-umræðuna hér á landi þar sem einstaklingar hafa fylkst í lið, ýmist með eða á móti aðskilnaði. Margir hafa talað fyrir því að bíða átekta og sjá til hvaða aðgerða verður gripið í nágrannalöndunum. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig unnið verður úr þessum tillögum sérfræðingahópsins hjá Evrópusambandinu.