Sérfræðingahópur sem fær það hlutverk að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána verður skipaður í þessari viku. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu RÚV .

Sá hópur mun starfa samkvæmt ályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem Alþingi samþykkti fyrr í sumar. Hann á jafnframt að taka út kosti og galla þess að stofna sérstakan leiðréttingasjóð vegna húsnæðislána og skila niðurstöðum sínum í nóvember.

Forsætisráðherra mun jafnframt í þessari viku skipa sérfræðingahóp um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Samkvæmt þingsályktun eiga tillögur þess hóps að liggja fyrir í lok árs.