Í stefnu máls Danól ehf. gegn ríkinu, sem varðar tollflokkun á jurtaostum, er bent á ýmis atriði sem innflytjandinn, Danól ehf., telur að eigi að leiða til þess að varan falli í fyrrnefndan jurtaostaflokk. Í fyrsta lagi er þar bent á bindandi álit belgískra tollayfirvalda þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að varan ætti undir númerið 2106.9086 enda sé ekki um ost að ræða. Þá er bent á að Ísland hafi skuldbundið sig til að fylgja tollflokkun Alþjóðatollamálastofnunarinnar (WCO) sem ætlað sé að stuðla að samræmdri tollflokkun milli ríkja. Niðurstaða innlendra yfirvalda sé á skjön við opinbert álit hennar.

„Þetta mál á sér margar hliðar. Hér eru undir miklir hagsmunir neytenda. Hér er líka tekið á því hvort Íslandi er heimilt að tollflokka vörur með öðrum hætti en aðrar þjóðir gera og þvert á ráðleggingar sérfræðinga Tollsins. Öðru fremur er hins vegar um að ræða grundvallarmál að því er varðar hvernig heimilt er að beita opinberu valdi til að ganga erinda eins markaðsráðandi fyrirtækis gegn þeirri litlu samkeppni sem það fær,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður hjá MAGNA, en hann flytur málið fyrir hönd Danól.

Til stuðnings fullyrðingu um að sérfræðingar Tollsins hafi verið á annarri skoðun liggja fyrir í málinu tölvupóstar milli starfsmanna Tollsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins (FJR). „Ráðuneytið, eftir atvikum að höfðu samráði við tollyfirvöld, getur breytt tollskrárnúmerum og fært þau til að ákveðnu marki, innan viðeigandi undirliða. Þá getur ráðuneytið einnig lagt gjaldaálagningu til fyrir Alþingi og þannig sett toll á ákveðin tollskrárnúmer. Aftur á móti geta hvorki ráðuneytið né tollyfirvöld ákveðið eftir geðþótta sínum í hvaða tollflokk eða kafla tollskrár tilteknar vörur falla því þar eru tollyfirvöld bundin af alþjóðasáttmálum,“ segir meðal annars í minnisblaði starfsmanns tollsins til FJR.

Þar er þeirri skoðun enn fremur lýst að breytta niðurstaðan „[gangi] þvert gegn skilgreiningum, flokkun og áliti WCO“ á því hvaða vörur teljist ostar og að með því að „tollflokka umþrættar vörur ranglega í 4. kafla tollskrár, þvert á skilgreiningar WCO og önnur útgefin bindandi álit, opnar íslenska ríkið sig fyrir mögulegum málsóknum, með tilheyrandi kostnaði og vinnu“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .