Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ráðið ýmsa sérfæðinga til að vinna með íslenskum stjórnvöldum að afnámi gjaldeyrishafta. Frá þessu er sagt á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Samið hefur verið við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP og ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP. Lee Bucheit mun stýra vinnu lögmannsstofunnar í verkefninu en hann var t.a.m. formaður íslensku samninganefndarinnar í Icesave. Þá mun Anne Krueger, prófessor í hagfræði við John Hopkins University og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri AGS veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf, einkum er snýr að þjóðhagslegum skilyrðum við losun hafta og veitingu undanþága. Jafnframt mun fjárfestingabankinn JP Morgan liðsinna stjórnvöldum vegna lánshæfismats Íslands.

Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra ráðið fjóra sérfræðinga til að vinna með fyrrnefndum ráðgjöfum að losun haftanna. Það eru þeir Benedikt Gíslason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands, Eiríkur Svavarsson, hæstaréttarlögmaður og Glenn Victor Kim, fjármálaráðgjafi hjá LJ Capital, sem starfaði áður hjá bandaríska fjárfestingabankanum Lehman Brothers. Kim hefur einnig starfað sem sérstakur ráðgjafi þýska fjármálaráðuneytisins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á evrusvæðinu.

Ráðning þessara ráðgjafa er liður í vinnu stjórnvalda við að létta fjármagnshöftum af íslensku efnahagslífi en það er eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni. Verið sé að vinna að heildstæðri lausn sem tekur á öllum þáttum haftanna, þ.m.t. uppgjöri slitabúanna.