Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur falið Hafsteini Þór Haukssyni, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, að rýna í álit umboðsmanns alþingis sem birt var í gær, í því skyni að skoða hvaða athugasemdir koma þar fram varðandi stjórnsýslu innanríkisráðuneytisins. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, birti í gær niðurstöður frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra, í lekamálinu. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Hanna Birna hafi farið út fyrir valdsvið sitt í samskiptum sínum við Stefán.

Hafsteinn Þór vinnur nú að minnisblaði um hvort og þá hvernig innanríkisráðuneytið eigi að bregðast við álitinu. Í samtali við RÚV segir hann að nokkuð sé um almenn tilmæli, bæði til innanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis, til að mynda varðandi siðareglur og stöðu aðstoðarmanna ráðherrra.

Hafsteinn mun líklega skila minnisblaðinu til innanríkisráðherra í lok næstu viku.