Von er á mörgum af helstu sérfræðingum heims í rafvæðingu samgangna og sjálfbærum lausnum, á aðalviðburði Samgönguviku Reykjavíkurborgar; Driving Sustainability ´08. Um er að ræða ráðstefnu um orkugjafa framtíðar í samgöngum dagana 18-19 september.

Sérfræðingarnir koma m.a. frá Toyota,Ford, Mitsubishi Motors, Vattenfall, Dong Energy, Mitsubishi Heavy Industries, Better Place, Shell Hydrogen og MIT.

Meðal gesta er Dr. Bertrand Piccard, sem var fyrstur manna til að fljúga í kringum hnöttinn á loftbelg. Hann mun fjalla um nýjar hátæknilausnir sem ryðja munu brautina fyrir sjálfbærar samgöngur. Piccard undirbýr nú samskonar hnattflug á sólarorkuknúinni flugvél og kemur hann hingað til lands í boði forseta Íslands.

Auk Piccard munu Bill Dubé, framleiðandi kraftmesta rafmagnsmótorhjóls heims, Chris Paine, leikstjóra heimildamyndarinnar Who Killed The ElectricCar? og fyrsta kínverska rafbílaframleiðandann sem heimsækir Ísland.

Í fréttatilkynningu Framtíðarorku, sem skipuleggur ráðstefnuna, segir að  Geir H. Haarde, forsætisráðherra, muni hleypa vistakstursátaki Landverndar af stokkunum ásamt fulltrúum Landverndar, Toyota, VÍS og Orkuseturs og keppir við þá í vistakstri að viðstöddu fjölmenni. Þá muni Össur Skarphéðinsson, Iðnaðarráðherra, tala um rafmagn í samgöngum á Íslandi, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra um mikilvægi þess að hraða nýrri og umhverfisvænni tækni í samgöngum.

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opnar Driving Sustainability klukkan 09:05 að morgni fimmtudagsins 18 september. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur slítur ráðstefnunni föstudaginn 19 september klukkan 15.15.