Karl Másson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, lítur á sölu fjárfestingafélagsins FL Group [ FL ] á hluta af eign sinni í Commerzbank jákvæðum augum, þrátt fyrir að það sé verið að innleysa tap, að því er fram kemur í frétt Dow Jones fréttaveitunar

Hann segir í fréttinni að það sé gott að fjárfestingafélagið takmarki áhættu sína á hlutabréfamörkuðu á tímum óraleika á fjármálamörkuðum.

Karl lítur ekki á söluna sem veikleikamerki á fjárhag fjárfestingafélagsins, en telur erfitt að segja hve mikið markaðir geta lækkað frekar áður en það fer að vera sárt.

Hann segir í fréttinni sölu FL Group á hluta af eign sinni í Commerzbank vera í takt við stefnu þess að færa sig í auknu mæli yfir í óskráðar eignir úr skráðum eignum.

Það sem af er degi hefur Commerzbank lækkað um 4,6%. Í gær lækkaði bankinn um  8,1%, samkvæmt upplýsingum frá Euroland.

Í tilkynningu frá FL Group segir að í ljósi lækkunar hlutabréfa í Commerzbank undanfarna daga hefur FL Group ákveðið að upplýsa um eignarhlut sinn í bankanum sem er um 2,1% 15. janúar 2008 en um áramót var eignarhluturinn um 2,9% og hafði þá minnkað úr 4,3% í lok þriðja ársfjórðungs. Sala hlutar FL Group í bankanum er hluti af reglulegu mati félagsins á eignum sem ekki falla undir kjarnafjárfestingar.

Heildargengistap vegna lækkunar bréfa Commerzbank á árinu 2008 nemur um 2,6 milljörðum króna, m.v. gærdaginn, að teknu tilliti til markaðsvarna félagsins.