Vladimír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti í gær að hann hefði gert Sergei Ivanov, núverandi varnarmálaráðherra, að fyrsta aðstoðarforsætisráðherra sínum, en samtals eru þeir þrír talsins.

Ivanov er talinn líklegur sem eftirmaður Pútíns þegar hann lætur af embætti forseta á næsta ári, en Ivanov á að baki svipaðan feril og Pútin þar sem þeir hafa báðir starfað í öryggisþjónustu Rússlands.

Þessi ráðning Ivanovs er líkleg til að ýta enn frekar undir þær raddir að hann muni hljóta hnossið, í stað Dimitri Medvedev, sem einnig er aðstoðarforsætisráðherra og var áður talinn líklegasti eftirmaður Pútíns.