*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 1. apríl 2018 15:04

Sérhæfa sig í fjarkönnun með drónum

Áhugi Tryggva Stefánsson á flugi var drifkrafturinn að stofnun Svarma sem hlotið hefur styrk til að smíða sjálfvirkan dróna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Svarmi er eina fyrirtækið á Íslandi svo vitað sé sem sérhæfir sig eingöngu í fjarkönnun með drónum. Fyrirtækið getur boðið upp á mjög sérhæfða þjónustu á því sviði.

„Svarmi er eitt af fáum fyrirtækjum í heiminum sem veita þjónustu með drónum á sviði fjarkönnunar ásamt því að hanna og framleiða eigin dróna og búnað í dróna. Í dag erum við ýmist að nota tilbúna dróna sem við höfum breytt til að fljúga með ákveðna skynjara allt upp í það að hanna og smíða okkar eigin dróna frá grunni,“ segir Tryggvi Stefánsson, framkvæmdastjóri Svarma.

„Kosturinn við þetta er að við getum leitt þróun á þessu sviði og samþætt nýja skynjara um leið og þeir verða til eða um leið og þess er óskað með mjög stuttum fyrirvara. Við erum ekki háðir því að erlendir framleiðendur samþætti þessa skynjara við sína dróna.“

Þróunarvinna á sviði hugbúnaðar

„Okkar þróunarvinna er því mjög mikið á sviði hugbúnaðar bæði í drónanum sjálfum en líka í hugbúnaði á úrvinnslu og birtingu gagna. Við höfum meðal annars verið að þróa drón sem á að verða fullkomlega sjálfvirkur sem hægt er að setja upp hjá viðskiptavinum og hann kortleggur þeirra vinnusvæði daglega eða eins oft og óskað er eftir,“ segir Tryggvi.

„Með aukinni tíðni á myndatöku má fyrst og fremst bæta yfirsýn og þannig draga úr kostnaðarsömum mistökum svo sem með of mikilli efnistöku eða fara fram yfir leyfilega hæð á svæðinu með efnisfyllingu en ekki síst geta komið auga á kostnaðarsamar og/eða hættulegar aðstæður áður en þær valda skaða svo sem í bilun eða galla í mannvirkjum eða aðrar hættulegar aðstæður. Með öðrum orðum þá fást margfalt betri og nákvæmari gögn en áður var í boði með margfalt minni kostnaði.“

Dæmi um þau gögn sem fyrirtækið aflar fyrir viðskiptavini sína eru loftmyndir, þrívíð landlíkön, yfirborðslíkön (e. DSM), gróðurfarskort og gróðurfarsvísar, hitakort og þrívíð hitalíkön sem gerð eru með hitamyndavélum (LWIR). Þá sér fyrirtækið einnig um að afla gagna um eftirlit mannvirkja bæði með hitamyndavélum og venjulegum hitamyndavélum og ýmislegt fleira.

„Við höfum líka verið að prófa okkur áfram hvernig best er að skoða þessi gögn svo sem í sýndarveruleika eða gegnum vafra en við teljum að mikil þörf sé á því að þessi gögn séu aðgengileg þannig að sem fjölbreyttastur hópur getur skoðað gögnin og komið með innslag, ekki bara nokkrir sérfræðingar,“ segir Tryggvi.  

Áhugi á flugi og flugvélum

„Það var í raun áhugi minn á flugi og flugvélum sem var drifkrafturinn að því að fyrirtækið var stofnað,“ segir hann og brosir.

„Meðfram námi mínu í menntaskóla kláraði ég einkaflugmanninn og stefndi að því að leggja það fyrir mig sem framtíðarstarf, að verða flugmaður. Það var samt áhugi minn á hönnun sem á endanum varð yfirsterkari en frá því að ég man eftir mér hef ég hannað fjölda loftfara sem fæst virkuðu sem skyldi og varð því úr að ég fór í vélaverkfræði við Háskóla Íslands,“ segir hann.

„Á þeim tíma var ég að smíða flugvélamódel, bensínknúin en fór fljótt að hafa áhuga á þyrildum eða drónum þegar þeir fóru að líta dagsins ljós. Ég fór því að smíða slík þyrildi sem í dag mundu teljast vera ansi frumstæð miðað við þá dróna sem seldir eru í dag.“
Tryggvi stofnaði í kjölfarið Svarma með þeim Gunnari Sigvalda Hilmarssyni og Victor Pajuelo Madrigal.

„Tækniþróunarsjóður hefur veitt Svarma styrk til þess að þróa sjálfvirkan dróna og teljum við að þessi lausn geti haft mikil áhrif á ýmis svæði sem vakta þarf mjög reglulega svo sem námur, landfyllingar, virkjanir og önnur iðnaðarsvæði,“ að sögn Tryggva. 
„Þegar fram í sækir getur þessi lausn enn fremur myndað yfirborð jarðar nánast í rauntíma óháð skýjafari sem oftar en ekki skyggir á yfirborð jarðar fyrir gervitunglum.“