Sigurður Atli Jónsson, forstjóri fjárfestingabankans Kviku, á langan feril að baki á íslenskum fjármálamarkaði. Sigurður Atli er hagfræðingur að mennt og hóf störf hjá Landsbréfum árið 1994. Hann stofnaði ALFA verð­ bréf árið 2004 og var framkvæmdastjóri þar fram að kaupum MP banka á fyrirtækinu árið 2011. Samhliða kaupunum var hann ráðinn forstjóri MP Banka og gegndi hann því starfi áfram eftir að fyrirtækið sameinaðist Straumi fjárfestingabanka og varð að Kviku.

Hvernig myndirðu lýsa Kviku?

„Maður gæti farið einföldu leiðina og sagt að við séum sjálfstæður og sérhæfður fjárfestingabanki sem faglega starfar við eignastýringu, markaðsvið­ skipti, fyrirtækjaráðgjöf og veitir sérhæfða fjármögnun og bankaþjónustu. Það er vissulega rétt en nær samt ekki utan um það sem við erum raunverulega að gera alla daga og nætur jafnvel. Við erum stefnulegur umbreytingabanki sem snýr góðum hugmyndum í tækifæri, tækifærum í aðgerðir og að­gerðum í góðar fjárfestingar.

Við leggjum mikla áherslu á að búa til klasa í kringum okkur. Til að fá hugmyndir og aðgang að tækifærum reynum við að velja og búa til sérhæfð fyrirtæki í kringum okkur sem verða hluti af klasasamfélagi Kviku. Þetta eru alls konar fagfyrirtæki, sum eru í okkar eigu eins og Júpíter og Akta sjóðir og önnur ekki. Við erum í samstarfi við margs konar fagaðila, jafnt innan fjármálageirans sem utan hans. Við erum í gagnvirkum samskiptum við aðila í klasasamfélaginu og starfsfólk Kviku er einnig í gagnvirkum samskiptum inn á við. Það má segja að við séum eins og Facebook, þar sem við „lækum“ hvert annað og samstarfsaðilana.

Við erum mjög markviss. Þannig getum við betur nýtt tækifærin fyrir viðskiptavini okkar, sem eru allir í forgrunni hjá okkur. Ég held að samfé­ lagið hafi breyst þannig að það sé þörf og eftirspurn eftir sérhæfingu. En það geta ekki allir búið yfir allri sérhæfingu og þess vegna borgar sig vel að vinna saman. Sérhæfingin sigrar samkeppnina. Með klasasamfélagi höfum við búið til sveigjanlegt skipulag sem getur stækkað eftir aðstæðum hverju sinni. Við erum vel búin til að takast á við sterkustu samkeppnina.

Kvika varð til við sameiningu MP banka og Straums fyrir tæpum tveimur árum. Hvað fólst í þessari sameiningu?

„Það má segja að sú sameining hefjist á „flysjun“ MP banka yfir í fjárfestingabanka og við sameiningu við Straum verður til þessi sérhæfði fjárfestingabanki. Það var mikill samhugur með­al eigenda og stjórnenda þessara fyrirtækja að búa til nýtt fyrirtæki. Það er lykilatriðið enda tókst vel til. Sameiningar byrja oft á einföldum hugmyndum sem snúa að því að skynsamlegt sé að sameina fyrirtæki til að hægt sé að spara kostnað. Það er í sjálfu sér alveg rétt og ég hef aldrei séð samruna sem ekki lítur vel út fyrirfram. Maður er þó meðvitað­ ur um að tölfræðin er alltaf á móti manni þar sem hlutfallslega oftar mislukkast samruni. Þess vegna er lykilatriði, sérstaklega í svona þekkingarfyrirtæki eins og Kvika er, að gera sér grein fyrir því að samruni snýst um fólk og samskipti, það að virkja rétt fólk, virkja mannauðinn og ná samstöðu um stefnuna þannig að allir gangi í takt. „Upplýst starfsumhverfi“ þar sem hvert og eitt okkar veit hver tilgangurinn er og hvaða forsendur liggja þar að baki slær taktinn. Líkurnar á því að ná árangri margfaldast. Hreyfiaflið í „Hugmyndafræðinni Kvika“ er að vera með sérstöðu á markaði og verðmætaskapandi sérhæfingu. Það er ekkert spennandi við kostnaðarhagræði. Það í sjálfu sér býr ekki til nýtt fyrirtæki. Nýtt fyrirtæki, nýtt skilvirkt skipulag er ástæðan fyrir því að við erum komin á þann stað sem við erum á í dag.“

Nú er fyrirhuguð sameining við Virðingu. Hver er hugmyndin á bak við hana?

„Sú sameining byggir á sömu hugmyndinni, að hagræða bjargræðinu og skapa aukin verðmæti með minni kostnaði. Fyrir mér snýst þetta um að búa til samvirkni milli Kviku og Virð­ingar. Í raun er of snemmt að segja til um samhuginn og árangurinn og hvort æskileg samvirkni náist. Ferlið er rétt hafið. Fyrsta þætti ferlisins, áreiðanleikakönnun, er nýlokið og of snemmt er að segja til um framhaldið. Ferlið hefur gengið vel til þessa.“

Kom það ykkur á óvart þegar Virðing leitaði eftir sameiningu?

„Mig minnir að þetta sé í fimmta skiptið sem ég er í einhvers konar sameiningarhugleiðingum eða viðræðum við Virðingu eða forvera þess fyrirtækis. Í þetta sinn hefur ferlið orðið lengra, meiri vilji er fyrir hendi núna en áður. Stjórnendurnir sjá að það borgar sig vel að vinna saman og búa til áðurnefnda sérhæfingu.“

Viðtalið við Sigurð Atla Jónsson, forstjóra Kviku, má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið rafrænt með því að smella á Tölublöð.