Nýtt uppboðsfyrirtæki, Arnason & Andonov ehf., hóf starfsemi hér á landi í byrjun október en það mun einnig reka netverslun. Fyrirtækið mun fyrst og fremst helga sig frímerkjum, myntum, seðlum, listaverkum og listmunum. Aðstandendur fyrirtækisins eru þeir Saso Andonov og Árni Þór Árnason en báðir eru þeir áhugasamir safnarar. Saso er hagfræðingur ættaður frá Makedoníu og hefur fengist við frímerkja og myntsölu undanfarin 10 ár, samhliða kennslu við University of Maryland, University College og í viðskiptafræðum við Háskóla Íslands. Árni rak fyrirtækið Austurbakka hf., umboðs og heildverslun, um árabil og hefur verið öflugur frímerkjasafnari undanfarin ár.

Að sögn Árna þá hefur hingað til ekki verið starfandi formlegt uppboðsfyrirtæki á landinu með frímerki og myntir. Íslenskir safnara hafa því vanalega þurft að leita til uppboðsfyrirtækja á Norðurlöndunum til að selja söfn sín. "Vandamálið er að oft veit fólk ekki hvað það er með í höndunum en þetta eru viðskipti sem byggjast fyrst og fremst á trausti. Þar vonumst við til að fyrirtækið komi sterkt inn. Við erum með töluverða reynslu og viljum að fólk geti leitað til okkar til að metið safn, jafnt sem einstaka hluti, og koma með tillögur um hvað eigi að gera við það," sagði hann og benti á að oft sitji fólk með söfn úr dánarbúum sem enginn veit hversu mikils virði er.

Meira í helgarblaði Viðskiptablaðsins.