Nokkrar af verslunum 10-11 munu framvegis verða mannaðar af sérþjálfuðu öryggisstarfsfólki frá Securitas. Í fréttatilkynningu frá Securitas segir að öryggisfulltrúarnir munu sinna öllum hefðbundnum afgreiðslustörfum og öryggiseftirliti og því leysa af hólmi afgreiðslufólk 10-11 á nóttunni.

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Trausta Harðarsyni forstjóra Securitas: „Við höfum unnið að ýmsum öryggislausnum með Högum undanfarin ár og samstarfið verið afar gott. Á dögunum hófum við að skoða hvort ekki væri hægt að auka enn meir öryggi viðskiptavina og starfsfólks 10-11 á nóttunni og í kjölfarið var þessi lausn þróuð. Með þessu móti geta verslanir 10-11 notið meiri sveigjanleika heldur en áður fyrr hvað varðar starfsmannamál á nóttunni, en erfitt getur reynst að manna stöður á þeim tíma sólarhringsins. Þá fylgir þessu fyrirkomulagi að við bjóðum upp á reglulegt skjalfært innra eftirlit og að starfsmennirnir gangi í gegnum öryggisskóla Securitas. “

Þar er einnig haft efir Sigurði Karlssyni rekstrastjóra 10-11: „Þessu fylgir mikið hagræði fyrir 10-11. Með þessu móti sér Securitas um að manna vaktirnar í þessum verslunum fyrir okkur og að tryggja að öryggi viðskiptavina okkar sé tryggt, eftir að skyggja tekur.”

Samið hefur verið um að Securitas muni framvegis manna næturvaktir 10-11 í þremur verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Til að byrja með er um að ræða verslanir 10-11 að Hjarðarhaga, Seljavegi og við Barónsstíg, segir í fréttatilkynningunni.