Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað á miðvikudag að halda vöxtum óbreyttum við litla hrifningu atvinnulífsins. Bankinn vísar til hjaðnandi verðbólgu og meiri efnahagsumsvifa en reiknað var með i rökfærslu sinni. Samtök atvinnulífsins segja hagtölur sýna aukna lægð í efnahagslífinu og óttast að aukið taumhald bankans muni dýpka niðursveifluna og draga hana á langinn. Þessi ágreiningur er ekki nema í aðra röndina um sérstakar aðstæður hér á landi heldur endurspeglar harðnandi deilur og aukna óvissu um stjórn peningamála á alþjóðavísu.

Ásgeir Jónsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, fjallaði nýlega um 100 ára sögu hagstjórnar á Íslandi í erindi á málþingi sem haldið var í tilefni af því að hundrað ár eru frá fæðingu Jónasar Haralz, fyrrum bankastjóra og efnahagsráðgjafa. Í erindi sínu sett Ásgeir fram tíu lexíur sem draga mætti af sögu peningastjórnunar á Íslandi.

Undirskrift erindisins var „hundraða ára einsemd“ og vísar til þess að saga íslensku krónunnar er engin hetjusaga, sér í lagi frá bæjardyrum Seðlabankans séð, en bankinn metur árangur nær alfarið út frá verðbólgu og stöðugleika. Samkvæmt því viðmiði er saga hagstjórnar á Íslandi nær því að vera harmsaga en nokkuð annað.

Fyrsta lexían sem Ásgeir dregur af sögunni er sú að það skipti meira máli að fylgja leikreglunum en hvaða leikur sé valinn. „Röng peningastefna er ekki ástæða þess að Íslendingar hafa meira og minna búið við óstöðugleika og verðbólgu frá fullveldi. Ástæðan er sú að leikreglum hefur ekki verið fylgt varðandi beitingu viðeigandi hagstjórnartækja og viðhalds almenns efnahagslegs stöðugleika,“ sagði Ásgeir sem benti þó á að Ísland hefði ekki verið neitt einsdæmi hvað þetta varðar.

„Frávik frá leikreglum er þó meira á Íslandi en annars staðar. Þjóðin hefur ekki reynt að fylgja þeim reglum sem peningastefnan krefst af henni.“

Kaldhæðni örlaganna

Vextir Seðlabankans hafa aldrei verið lægri á þessari öld og verðstöðugleiki hefur verið meiri undanfarin ár en Íslendingar hafa mátt venjast í gegnum tíðina. Hagþróun síðastliðinn áratug hefur sömuleiðis verið ákaflega hagfelld á meðan Seðlabankar í Evrópu og Norður-Ameríku hafa barist í bökkum og gripið til örþrifaráða til að koma hagvexti aftur á beinu brautina eftir fjármálahrundið 2008.

Hagtölur sýna líka að íslenska hagkerfið er bæði heilbrigðra og meira í samræmi við það sem eðlilegt þykir samkvæmt þeim alþjóðlegu leikreglunum sem Ásgeir vísar til.

Af þessum sökum er eðlilegt að þeir sem stýra Seðlabankanum leyfi sér örlítið kokhreysti og klappi sjálfum sér á bakið við opinber tækifæri. Þessa ánægju má finna í fyrrgreindu erindi Ásgeirs, sem vísar allri ábyrgð á brottgengri hagstjórn á lýðveldistímanum, á stjórnmálastéttina. Þar hafi öll áhersla verið á stéttaátök og fyrir vikið hafi íslenskir ráðamenn kosið að líta fram hjá faglegum „leikreglum“ við hagstjórnina með fyrrgreindum afleiðingum. „Seðlabankinn hefur yfirleitt staðið nánast einn og óstuddur í baráttu sinni gegn verðbólgu,“ sagði Ásgeir.

Á hinn bóginn er óneitanlega ákveðinn kaldhæðni í því fólgin að loksins þegar íslenska hagkerfið er orðið „eðlilegt“ samkvæmt leikreglum þjóðarhagfræði er íslenska hagkerfið engu að síður, enn og aftur, algjörlega á skjön við allar aðrar þróaðar þjóðir sem við berum okkur saman við.

Hundrað ára einsemd, sem Ásgeir nefnir í yfirskrift erindi síns, á því ekki síður við um stöðu mála í samtímanum heldur en sögunni. Íslensk hagstjórn virðist dæmd til að vera á skjön og stinga í stúf – meira að segja þegar ástandið er „eðlilegt“ er það óeðlilegt í alþjóðlegum samanburði.

Verðbólgudraugurinn kveður

Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðunum hafa seðlabankar 41 þjóðríkis tekið upp verðbólgumarkmið við stjórn peningamála. Talan hækkar upp í 43 þegar seðlabanki Bandaríkjanna (hefur fleiri markmið en verðbólgu) og Seðlabanki Evrópu (ekki þjóðríkisbanki) eru talin með.

Tímaritið Economist greinir frá því að þegar miðað er við efnahagsumsvif (landsframleiðslu) þá sé verðbólga undir markmiði í 91% tilfella af samanlögðu hagkerfinu sem er undir verðbólgumarkmiði. „Þetta er staðan í öllum þróuðum hagkerfum heims – að Íslandi einu undanskildu,“ segir í umfjöllun tímaritsins.

Verðbólgumarkmið við stjórn peningamála byggir á meginstraumsviðhorfum þjóðhagfræðinnar og endurspeglar leikreglur nútíma hagstjórnar samkvæmt viðmiðum alþjóðlegra stofnana og háskólasamfélagsins. Stefnan hefur breiðst út um heiminn jafnt og þétt frá miðjum 10. áratug síðustu aldar og hún er það fyrirkomulag sem seðlabankar vanþróaðri ríkja stefna á að taka upp í viðleitni sinni til að nútímavæðast.

Stefnan dregur mjög dám af þróun þjóðhagfræðinnar frá áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar þegar baráttan við verðbólgu yfirgnæfði efnahagsumræðuna. Síðastliðinn áratug hefur of mikil verðbólga hins vegar ekki verið ofarlega á verkefnalista stjórnenda seðlabanka í efnameiri hluta heimsins. Þvert á móti hefur glíman verið við verðhjöðnun og dvínandi hagvöxt – í stað verðbólgumartraða dreymir seðlabankastjóra nútímans um að verðbólga fari fljótlega að taka við sér á ný.

Æpandi ósamræmi

Efnahagsþróunin í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan síðastliðinn áratug, eða frá fjármálahruninu, hefur í æ ríkari mæli verið þvert á það sem leikreglur verðbólgumarkmiðsins kveða á um. Þær áskoranir sem stjórnendur peningamála hafa staðið frammi fyrir hafa gert það að verkum að þeir hafa gripið til aðgerða sem hvergi eiga sér staf í reglubókinni. Svokölluð magnbundin íhlutun á skuldabréfamarkaði er skýrasta dæmið um þetta en í viðleitni sinni til að örva hagkerfin til vaxtar hafa seðlabankar ráðist í fordæmalaus uppkaup á skuldabréfum fyrir gríðarlegar upphæðir.

Aðgerðirnar voru í upphafi kynntar sem neyðarúrræði til skamms tíma vegna sérstakra aðstæðna á mörkuðum. Nú þegar tíu ár eru liðin síðan elsti seðlabanki Svíþjóðar reið á vaðið og hóf að vinna að því að lækka vaxtarstig niður fyrir núll, hafa æ fleiri seðlabankar fylgt í kjölfarið með þeim afleiðingum að vextir eru nú neikvæðir í flestum ríkari þjóðum heimsins. Stefnan sem var óhefðbundin er orðin hefðbundin og almenn. Aðgerðirnar sem áttu að vera til skamms tíma eiga sér nú tíu ára sögu og engin merki eru um að þeim verði hætt í bráð. Þvert á móti hafa seðlabankar frekar aukið magnbundna íhlutun sína að undanförnu frekar en hitt.

Þetta átti ekki að gerast skv. reglubókinni og spjótin standa á seðlabönkunum að skýra ósamræmið. Í febrúar 2016 sagði Mario Draghi, þáverandi bankastjóri seðlabanka Evrópu, að spurningin um hvort seðlabönkum myndi takast að auka verðbólgu í samræmi við markmið bankans væri mikilvægasta grundvallarspurning sem stærstu seðlabankar heims stæðu frammi fyrir í dag. Mario Draghi lét af störfum í síðasta mánuði en þá hafði bankanum ekki tekist að svara þessari grundvallarspurningu.

Mark Carney, bankastjóri seðlabanka Englands, varaði nýlega við peningastefnu og markmiðum sem byggðu á samkomulagi sem æ betur væri að koma í ljós að séu óraunhæfar og ill framkvæmanlegar. Jerome Powell, bankastjóri seðlabanka Bandaríkjanna, sagði í mars síðastliðnum að lítil verðbólga í heiminum væri helsta áskorun okkar tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .