Ríkiskaup hefur auglýst útboð á sérleyfisleiðum vegna áætlunar- og skólaaksturs fyrir árin 2006-2008. Sú ákvörðun samgönguráðherra, um að fela Vegagerðinni að bjóða út öll rútusérleyfi, er liður í því að efla almenningssamgöngur í landinu Er þetta í fyrsta sinn sem sérleyfi til fólksflutninga um allt land eru boðin út, en breytingin tekur gildi 1. janúar 2006.

Farin er sú leið að skipta landshlutum upp í fimm þjónustusvæði og bjóða fjölmargar sérleyfisleiðir til rútuflutninga út innan einstakra svæða.
Á undanförnum árum hefur það sýnt sig að á mörgum sérleyfisleiðum eru ekki rekstrarlegar forsendur til að halda uppi viðunandi þjónustustigi. Í útboðinu er því meðal annars óskað eftir tilboðum í umframkostnað á viðkomandi sérleyfisleið, það er mismunur áætlaðra tekna og gjalda sem bjóðandi telur sig þurfa til að geta staðið undir rekstri á viðkomandi leið.