Eignarhaldsfélagið Serrano Nordics, sem fer með 100% hlut í SNL TD Sweden AB sem rekur fjóra Serrano veitingastaði í Svíþjóð skilaði fyrir stuttu ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2011. Einar Örn Einarsson og Emil Helgi Lárusson eru eigendur Serrano á Íslandi og eiga jafnframt reksturinn í Sviþjóð ásamt Einari K. Kristinssyni, föður Einars Arnars sem oft hefur verið kennur við Danól. Einar K. Kristinsson á um 40% hlut í Serrano Nordics í gegnum eignarhaldsfélagið Lind ehf.

Serrano Nordics var á árinu 2011 rekið með tæplega 85 milljóna króna tapi samkvæmt ársreikningi félagsins en þar af var 73 milljóna tap vegna hlutdeildar í taprekstri sænska félagsins sem Serrano Nordics á 100% hlut í. Á árunum 2008-2010 var hlutdeild í tapi sænska félagsins um 220 milljónir króna. Rekstur Serrano í Svíþjóð hefur því skilað um 293 milljóna tapi á þessum fjórum árum frá því hann hófst. Þess má geta að Serrano Nordics hefur þó tapað nokkru meira fé á þessum árum en ójafnað tap félagsins nemur um 315 milljónum króna.

Gengur betur á Íslandi

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í október þá skilaði Serrano á Íslandi hagnaði á árinu 2011. Hagnaður félagsins nam um 39,8 milljónum króna samanborið við 12,5 milljónir króna árið áður.

Þess má geta að þeir Einar og Emil opnuðu veitingastaðinn NAM í desember í fyrra hér á landi. Þá bættu þeir við Serrano stað í Spöngina fyrir skömmu en staðirnir eru alls sjö talsins hér á landi og fjórir í Svíþjóð.