Íslenska skyndibitakeðjan Serrano hlaut sl. fimmtudag sænsku matvælaverðlaunin Gullkúna. Í tilkynningu frá Serrano segir að Gullkúin sé gjarnan kölluð „Óskarsverðlaun“ matvælaiðnaðarins í Svíðþjóð.

Skyndibitakeðjan var valinn besti skyndibitinn þar í landi.

Fréttatilkynning frá Serrano:

„Íslenska veitingahúsakeðjan Serrano hlaut á fimmtudag hin eftirsóttu sænsku matvælaverðlaun Gullkúna. Verðlaunin voru afhent sl. fimmtudagskvöld á Grand Hotel í Stokkhólmi að viðstöddu fjölmenni við árlega athöfn þar sem saman koma þekktustu veitinga- og matreiðslumenn Svíþjóðar ásamt stjórnendum stærstu matvælafyrirtækjanna þar í landi.

Gullkúin eru gjarnan kölluð "óskarsverðlaun“ matvælaiðnaðarins í Svíþjóð og því er mikill heiður fyrir litla veitingahúsakeðju eins og Serrano að hljóta þau.

Besti skyndibiti ársins
Gullkúin er veitt í fimm flokkum og bar Serrano sigur úr býtum í flokknum „Besti skyndibitinn“. Hinir flokkarnir eru: Besti umhverfisárangur, besti sælkeraskólinn, besta framreiðsla fyrir eldri borgara og besta sælkeraverslunin.
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir því að veita Serrano verðlaunin sagði m.a.: „Ný hugsun og sköpunarkraftur gefur skyndibitanum sem fólk fær á Serrano nýja vídd. Gæði og metnaður einkenna matseðil Serrano enda er ferskt hráefni uppistaðan í framleiðslunni. Framsýni og eldmóður stofnenda og stjórnenda leiðir til þess að gesturinn fær þetta „litla aukalega“ sem dómnefnd var að leita eftir. Hér er á ferðinni úthugsað konsept og góður matur, sem samanlagt á stærstan þátt í jákvæðri upplifun sænskra neytenda.“

Yfirveguð stækkun
Emil Helgi Lárusson og Einar Örn Einarsson stofnuðu Serrano árið 2002. Serrano staðirnir eru nú níu talsins, sex á Íslandi og þrír í Svíþjóð en fjórði staðurinn opnar á föstudaginn í Stokkhólmi. Ákvörðunin um að fara í útrás til Svíþjóðar var tekin að vel yfirlögðu ráði. Borgin er höfuðborg Norðurlanda þegar litið er til viðskipta og flestar erlendar keðjur velja að opna sín útibú fyrst þar áður en farið er til annarra Norðurlanda. Þeir Emil Helgi og Einar Örn hafa lagt áherslu á að vanda vel við opnun nýrra staða í Svíþjóð. Lögð hefur verin áhersla á að ná góðum árangri með þá staði sem þegar hafa verið opnaðir sem og að velja rétta staðsetningu fyrir næstu staði.  Þetta er í annað sinn sem Serrano í Svíþjóð er verðlaunað en skyndibitakeðjan tók við verðlaunum sem bragðlaukur ársins í nóvember á síðasta ári.

Emil Helgi Lárusson er að vonum ánægður með verðlaunin: „Serrano telst enn vera nýung í Svíþjóð og til að byrja með þurftu gestirnir oft að spyrja margra spurninga. Okkur tókst að koma með eitthvað sem sænskir neytendur þekktu ekki áður en virðast kunna vel að meta. Það er ánægjulegt að sjá sömu gestina aftur og aftur“.

Um Serrano

Hollusta, ferskt hráefni og fjölbreytni í bland við einfalda framsetningu er aðalsmerki Serrano, bæði á Íslandi og í Svíþjóð Allur matur er framleiddur frá grunni og notast er við úrvals hráefni, grænmeti, kryddjurtir, olíur og baunir. Gestir velja sjálfir meðlætið og hægt er að borða á staðnum eða taka með.

Frétt sem send var sænskum fjölmiðlum vegna verðlaunaafhendingarinnar
http://www.cisionwire.se/arla-foods/pressinfo-2011-04-07-----serrano-vinnare-av-arla-guldko--2011-basta-snabbmal105911“