Herragarðurinn hefur samið við erlent fyrirtæki um að sérsauma jakkaföt og skyrtur á íslenska karlmenn undir merkjum Herragarðsins.

Þegar er farið að veita þessa þjónustu í verslunum Herragarðsins, en einnig er þar boðið upp á sérsaum á jakkafötum frá Ralph Lauren og Armani.

„Þetta eru gæðaföt á viðráðanlegu verði,“ segir Vilhjálmur Svan Vilhjálmsson, verslunarstjóri Herragarðsins í Kringlunni í samtali við Viðskiptablaðið.

Vilhjálmur segir að unnið hafi verið að þessu í um tvö ár. „Mestur tíminn fór í það að finna rétta samstarfsaðilann, en við fundum hollenskt fyrirtæki sem er með mjög fullkomna verksmiðju í Marokkó sem mun sauma fötin fyrir okkur.“

Hákon Hákonarson, eigandi Herragarðsins og Boss verslunarinnar, segir að um sé að ræða fjölskyldufyrirtæki með djúpar rætur í fataframleiðslu.

„Þetta er Van Gils fjölskyldan sem átti lengi vörumerkið Van Gils. Það merki er nú komið í annarra eigu, en fjölskyldan er ennþá í þessum rekstri,“ segir Hákon.

Fötin verða saumuð undir merkinu "Herragarðurinn sérsaumur" og munu viðskiptavinir geta valið úr fjölda sniða og efna, með dyggri aðstoð starfsmanna Herragarðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Tími mikilla byggingarframkvæmda er við það að renna upp.
  • Úttekt á kostnaði við opinber verkefni.
  • Umfjöllun um skuldastöðu Reykjanesbæjar.
  • Viðtal við forstjóra fasteignasölunnar Nýhafnar.
  • Fjármálastjórar eru bjartsýnni á efnahagsumhverfið.
  • Svipmynd af Hönnu Kristínu Skaftadóttur, fjármálastjóra Skema.
  • Umfjöllun um ferðaþjónustufyrirtækið Wake Up Reykjavík.
  • Ítarlegt viðtal við Jón Sigurð Helgason, forstjóra KPMG.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Illuga Gunnarsson.
  • Óðinn fjallar um kolefnisskatt.