Fyrr í vikunni var gengið frá endurnýjun á samningi VÍS og Bændasamtakanna um víðtæka tryggingavernd fyrir bændur. Samkvæmt samningnum stendur bændum til boða tryggingapakki sem er sérsniðinn að þörfum hvers og eins.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Þar kemur fram að bændum sem stunda hefðbundinn búskap, reka kúabú eða sauðfjárbú stendur til boða  landbúnaðartrygging sem inniheldur vernd á bústofni, vélum og tækjum og frjálsa ábyrgðartryggingu.

Í þessum pakka eru einnig slysatryggingar, örorkutryggingar, launþegatryggingar, óveðurstryggingar o.fl. Bændur sem stunda aðrar búgreinar svo sem ylrækt, svína-, loðdýra- og kjúklingarækt eða ferðaþjónustu geta einnig fengið sína sérhæfða pakka.

Þá kemur fram að svokallaðir bændafulltrúar VÍS heimsækja reglulega þá bændur sem nýta sér þessa tryggingavernd og fara yfir hvort tryggingaþörf þeirra hefur verið að breytast t.d. vegna breyttrar stærðar á búi, nýbygginga, breytinga á kvóta eða annarra þátta sem geta haft áhrif á tryggingaþörfina.

„Venjulega breytist ekki mikið ár frá ári en mikilvægast er að tryggingaupphæðirnar séu réttar“ segir Guðmundur Ólafsson bændafulltrúi VÍS á Suðurlandi í tilkynningunni.