Svetlana Markovic, framkvæmdastjóri og eigandi SM kvótaþings, segir verð aflaheimilda undanfarin misseri endurspegla sérstakar aðstæður sem ríkt hafa í umhverfi sjávarútvegsfyrirtækja. Af þeim sökum hefur verðlagning verið frábrugðin því sögulega jafnvægi sem venjulega ríki á markaðinum.

„Fyrir það fyrsta setti sjómannaverkfallið 2017 strik í reikninginn og skekkti myndina. Óvenjumikið af aflaheimildum var þá flutt milli fiskveiðiára og fyrir vikið var töluvert meira framboð  á kvóta árið 2018. Þá var og er enn í gangi mikil endurnýjun á togaraflotanum og tafir í afhendingu nýrra skipa höfðu í för með sér að afköst í veiðum voru minni en ella, sem aftur hafði áhrif á eftirspurnarhlið markaðarins með leigukvóta. Fleira kemur til sem skekkir myndina en mestu máli skiptir er að leiðrétting á þessu óvenjulega ástandi er langt komin. Og ég reikna með að verðið verði aftur komið í takt við langtíma jafnvægi á þessu ári,“ segir Svetlana.

Hliðstæður þróunarinnar á verði aflaheimilda á hátindi þessarar hagsveiflu og árunum fyrir hrun benda einnig til þess að framboð á fjármagni hafi haft ráðandi áhrif á verðmyndun aflaheimilda. Ólíkt aðdraganda hrunsins, þar sem útlánadrifnar verðhækkanir héldu áfram þar til hagkerfið fór fram af bjargbrúninni, var gripið mun fyrr til aðgerða nú og lofti hleypt úr þenslunni. Eignaverðshækkunin náði því hvorki sömu hæðum né varði jafn lengi og á árunum fyrir hrun. Þvert á móti var leiðrétting langt á veg komin þegar hagsveiflan tók að snúast í þetta skiptið.

Þetta skiptir miklu máli því í báðum hagsveiflunum á þessari öld var það sjávarútvegurinn sem leiddi hagkerfið úr niðursveiflu aftur til hagvaxtar og góðæris. Leiðréttingin nú gefur því fyrirheit um að ekki sé langt að bíða þar til sjávarútvegurinn finni botninn og geti spyrnt á móti samdrætti annars staðar í hagkerfinu.

Það verður hins vegar ekki litið framhjá því hversu mikil áhrif fjármálakerfið hefur haft á þróun sjávarútvegsins alla þessa öld. Tíðrædd hagræðing í sjávarútvegi hefur jafnvel framar öðru í raun þýtt hagræðingu á efnahagsreikningi fjármálastofnana. Þannig hafi aflaheimildir ekki endilega leitað til þeirra sem ná bestum árangri í veiðum, vinnslu og sölu á afurðum heldur til þeirra sem hafa nægilegan fjárhagslega styrk til að bera skuldirnar þegar útlánaþenslan hefur keyrt um þverbak.

Mikil samkeppni er um aflaheimildir í íslenskum sjávarútvegi og niðurstaða hennar hefur gríðarleg áhrif. Ekki bara á hagtölur í þjóðhagsreikningum heldur á búsetu í landinu og hvernig arði af stærstu auðlind þjóðarinnar er skipt. Sjávarútvegurinn sem atvinnugrein hlýtur að gera kröfu um að samkeppnin sé háð á sanngjörnum forsendum og ráðist á grundvelli reksturs og afkomu fyrirtækja í greininni sjálfrar en ekki stemningunni á fjármálamörkuðum hverju sinni. Annars er hætt við að langþráður friður náist seint um það fyrirkomulag aflaheimilda sem liggur greininni til grundvallar.