Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að dómur í Exeter málinu svokallaða, hafi dregið upp mjög skýrar leiðbeiningar um þau atriði sem hann horfir sérstaklega til við ákvörðun sektar. Að því leytinu til hafi dómurinn töluvert fordæmisgildi.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Ólafur um þetta: „Þær línur sem hann leggur eru vísbendingar í að minnsta kosti tvær áttir. Annars vegar myndar hann snið fyrir okkur sem rannsökum þessi mál sem við getum mátað önnur mál við. Hins vegar gefur hann líka leiðbeiningar til héraðsdómstólanna um með hvaða hætti þeim beri að taka á sambærilegum málum. Út frá því er þetta veigamikið fordæmi.“

© vb.is (vb.is)
Fjallað er ítarlega um fordæmi dómsins í nýjasta Viðskiptablaðinu og greint frá því til hvaða þátta Hæstiréttur horfði til. Mörg sambærilega mál eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.

„Það er ljóst að ef það verður sakfellt í þeim málum þá stefnir í að það verði þungir dómar. Vænt tjón mun vega mjög þungt við ákvörðun refsingar. Kannski er dómurinn bara að senda skýr skilaboð út í samfélagið um að þegar höndlað er með háar fjárhæðir, eins og gert er í mörgum þessara mála, þá verði menn að sýna fyllstu varúð og ganga um það af mikilli ábyrgð," segir Ólafur í samtali við Fréttablaðið í dag.