Skuldatryggingaálag Ríkissjóðs Íslands til fimm ára stendur í 220 punktum og hefur lækkað úr 264 punktum frá áramótum. Undanfarnar vikur hefur þróunin verði þveröfug hjá þeim ríkjum Evrópu sem standa hvað veikust.

Þetta kemur fram í vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Í markaðsfréttum segir að ef horft sé til ávöxtunarkröfu skuldabréfs Ríkissjóðs Íslands, sem er á gjalddaga í desember næstkomandi, er krafan um 5,7%. „Ljóst er að engin hætta er á því að skuldabréfið fáist ekki greitt, sé horft til gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og því nokkuð sérstakt að krafan sé ekki lægri.  Nokkuð mikill munur er á kaup- og sölugengi, besta kauptilboð er á um 6,5% en besta söluboð á 4,9% ávöxtunarkröfu,“ segir í markaðsfréttum.