*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 28. febrúar 2021 17:02

„Sérstakt að vera aðeins kjörinn í ár“

Stjórnarmaður Icelandair segir nokkuð undarlegt sé að vera aðeins kjörinn til árs í senn í alþjóðlegum samanburði.

Júlíus Þór Halldórsson
John Thomas hefur yfir 35 ára reynslu úr flugheiminum, meðal annars sem forstjóri Virgin Australia.
epa

Hinn bandaríski John Thomas tók sæti í stjórn Icelandair í mars í fyrra, rétt um það leyti sem heimsfaraldur kórónuveirunnar var að skella á, og flugsamgöngur svo til lögðust af. Hann segir viðskiptaáætlun félagsins góða, en sóknartækifæri geti meðal annars legið í meiri samvinnu við aðra haghafa.

Thomas á að baki áratuga reynslu úr flugheiminum. Hann starfar sem ráðgjafi hjá Mc-Kinsey & Co og hafði áður verið forstjóri Virgin Australia Airlines. Þá starfar hann enn fremur sem ráðgjafi í innviðauppbyggingu og tæknimálum tengdum flugi.

Thomas sækist eftir áframhaldandi stjórnarsetu og lýsir eindregnum vilja til að sitja áfram. Hann bendir á að hann hafi varið talsverðum tíma og orku í að setja sig vel inn í reksturinn frá því að hann tók stjórnarsætið í fyrra.

Almennt æskilegt að stjórnarfólk sitji lengur
„Það er örlítið sérstakt að vera aðeins kjörinn til eins árs í senn.“ Í flestum stjórnum erlendis sé skipunin til að lágmarki fimm ára í senn, enda sé það hlutverk þeirra að horfa á stóru myndina og móta langtímasýn og stefnu félagsins.

„Við erum að taka ákvarðanir sem munu hafa áhrif á fyrirtækið næstu árin. Almennt er það því álitið æskilegt að stjórnarfólk sé enn starfandi þegar þau áhrif fara að koma fram.“ Thomas er meðal þeirra sem tilnefndir voru á dögunum af tilnefningarnefnd, en fleiri sækjast eftir sæti en þeir tilnefndu, og fleiri en sem sætunum nemur.

„Ég tel að framlag mitt til fyrirtækisins síðastliðna 12 mánuði hafi verið töluvert. Þetta er frábært flugfélag og yndislegt land, og ég hef mikinn áhuga á áframhaldandi aðkomu að rekstrinum. Ég fæ svo bara að heyra það að leikslokum eins og aðrir hvort ég hafi hlotið endurkjör eða ekki,“ segir Thomas léttur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Icelandair John Thomas