Embætti sérstaks saksóknara bað erlend stjórnvöld tólf sinnum um aðstoð við rannsókn sakamála með því að afla afrita af tölvupóstum á árunum 2010 til 2013. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata.

Þrisvar sinnum hafa stjórnvöld í Bretlandi verið beðin um þetta, stjórnvöld í Lúxemborg átta sinnum og stjórnvöld í Bandaríkjunum einu sinni. Engri beiðni var hafnað en ein var afturkölluð að ósk rannsakenda hér á landi.

Helgi Hrafn spurði einnig um það hversu oft sönnunargögn, sem fengin hafa verið af samskiptamiðlum, hafa verið lögð fram í sakamáli af hálfu ákæruvaldsins á sama árabili. Í svarinu kemur fram að sérstakur saksóknari hefur í tuttugu tilfellum lagt fram sönnunargögn af samskiptamiðlum, þar af tíu sinnum í fyrra og átta sinnum árið 2012. Í öllum tuttugu tilvikum voru lagðir fram tölvupóstar, fimm sinnum voru einnig lögð fram símtöl og einu sinni voru lögð fram símtöl á Skype.