Lánveitingar til félagsins Ímon vegna kaupa félagsins á hlutabréfum í Landsbankanum er eitt þeirra mála sem embætti sérstaks saksóknara hefur ákært í tengslum við rannsókn á markaðsmisnotkun hjá bankanum. Ákæra í málinu var gefin út fyrir helgi á hendur fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum bankans. Ímon var í eigu athafnamannsins Magnúsar Ármann. Félagið keypti 4% hlut í Landsbankanum fyrir fimm milljarða króna í lok september árið 2008. Nokkrum dögum síðar fór bankinn í þrot. Bankinn lánaði fyrir viðskiptunum og tók veð í bréfunum sjálfum auk hlutar Ímons í sparisjóðnum Byr. Ímon var á þeim tíma stærsti hluthafi Byrs.

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að þrjú mál tengist markaðsmisnotkun bankans og hafi þau verið sameinuð í eina ákæru.

Fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 segir í dag að viðskipti Landsbankans við Ímon hafi verið til rannsóknar í rúm fjögur ár og hafi Magnús um tíma verið með réttarstöðu sakbornings á rannsóknarstigi málsins. Hann hafi síðan fengið upplýsingar um það bréfleiðis að rannsókn á þætti hans væri lokið án þess að til ákæru myndi koma.