Elmar Svavarsson, Ljósmynd Pressphotos.biz
Elmar Svavarsson, Ljósmynd Pressphotos.biz
Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákærur á hendur fjórum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga. Hinir ákærðu eru Birkir Kristinsson, Magnús Arnar Arngrímsson, Jóhannes Baldursson og Elmar Svavarsson. Fréttablaðið greinir frá ákærunum í dag, en þær tengjast 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis, sem þá var yfirmaður einkabankaþjónustu Glitnis.

Jóhannes Baldursson
Jóhannes Baldursson
Ákæran var gefin út á föstudag. Fram kemur í umfjöllun Fréttablaðsins að í fyrsta lagi eru Jóhannes, Magnús og Einar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita einkahlutafélaginu lánið til að kaupa hlutabréf í bankanum. Í öðru lagi eru Elmar og Jóhannes ákærðir fyrir umboðssvik vegna munnlegs samnings við Birki um skaðleysi félags hans, en bréfin voru síðar keypt aftur á yfirverði. Birkir hagnaðist um 86 milljónir á viðskiptunum samkvæmt ákærunni og er Elmar ákærður fyrir umboðssvik með því að standa þannig að uppgjöri samningsins.

Þá er Birkir ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikunum, en til vara hylmingu og peningaþvætti. Í fimmta lið ákærunnar er Jóhannes, Elmari og Birki gefið að sök markaðsmisnotkun. Í síðasta lið er Birkir ákærður fyrir meiriháattar brot gegn ársreikningalögum, með því að greina ekki frá láninu í ársreikningi BK-44 fyrir árið 2007.