Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært fjárfestinn Aðalstein Karlsson, fyrrverandi stofnanda og eiganda heildverslunar A. Karlsson og fasteigna Hótel Borgar, fyrir meiriháttar brot á skattalögum á árunum 2007 til 2009 vegna tekjuáranna á undan. Í ákæru á hendur Aðalsteini segir að hann hafi látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur upp á rúmar 376,4 milljónir króna og stungið rúmum 37,6 milljónum króna undan skatti.

Fjármagnstekjurnar eru komnar til vegna uppgjöra á 263 framvirkum samningum með undirliggjandi hlutabréf, 12 framvirkum samningum með undirliggjandi skuldabréf og fjögurra framvirkra gjaldmiðlasamninga sem gerðir voru við gamla Landsbankann og MP banka, að því er fram kemur í ákærunni.

Aðalsteinn vildi ekki tjá sig um málið að sinni þegar VB.is hafði samband við hann.

Dró tap frá hagnaði

Mál Aðalsteins er af sama meiði og mörg önnur mál sem embætti sérstaks saksóknara hefur ákært í upp á síðkastið en í þeim flestum hefur hinn ákærði dregið tap af einstökum samningum frá hagnaði innan sama tekjuárs. Einstaklingum hefur ekki verið heimilt að gera slíkt, samkvæmt skattalögum.

Mál embættis sérstaks saksóknara á hendur Aðalsteini verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Aðalsteinn getur samkvæmt ákærunni átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi auk margfaldrar sektargreiðslu.