Matsfyrirtækin Moody´s og Standard & Poor's verða hér eftir að aðgreina annars vegar lánshæfiseinkunnir fasteignatryggðra skuldabréfavafninga og hins vegar annars konar fjármálaafurðir, samkvæmt nýjum siðareglum Alþjóðasamtaka verðbréfaeftirlitsstofnana (IOSCO) sem kynntar voru á árlegri ráðstefnu samtakanna í París í gær.

IOSCO segist ekki reikna með öðru en að matsfyrirtækin muni framfylgja hinum nýju siðareglum.

Matsfyrirtækjunum verður óheimilt að mæla sérstaklega með einni aðferð umfram aðra til að pakka saman lánasafni sem fyrirtækin gefa síðan í kjölfarið lánshæfiseinkunn. IOSCO segir jafnframt að það ætti að ráðast í sjálfstæða endurskoðun á því hvernig matsfyrirtækin veita lánshæfiseinkunnir.

Michel Prada, yfirmaður franska fjármálaeftirlitsins og stjórnarformaður tækninefndar IOSCO, hefur gagnrýnt matsfyrirtækin fyrir þá aðferðafræði sem þau beittu þegar þau gáfu skuldabréfavafningum, sem tryggðir voru með veði í bandarískum undirmálslánum, hæstu lánshæfiseinkunn. Afskriftir og tap fjármálafyrirtækja vegna slíkra skuldabréfavafninga nema nú um 380 milljörðum Bandaríkjadala.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Prada að hægt væri að greina á milli einkunna slíkra skuldabréfavafninga og annars konar fjármálaafurða með því að notast til dæmis við mismunandi einkunnakvarða. Fyrr í þessum mánuði ákvað Moody´s hins vegar að hverfa frá fyrri áformum sínum um að innleiða nýtt lánshæfismatskerfi fyrir flókna fjármálagjörninga sem myndi byggjast á tölum í stað bókstafa.

IOSCO hefur formlega séð engar eftirlitsskyldur með starfsemi matsfyrirtækja, heldur starfar aðeins í gegnum þær stofnanir sem eiga aðild að samtökunum, þar á meðal bandaríska og breska fjármálaeftirlitið.

Á þessu gæti hins vegar orðið einhver breyting ef tillögur IOSCO -- sem njóta stuðnings Prada -- ná fram að ganga. Á ráðstefnu samtakanna voru kynntar hugmyndir sem gera ráð fyrir því að komið verði á fót sérstöku alþjóðlegu eftirliti með starfsháttum matsfyrirtækja. Þrátt fyrir að slík eftirlitsstofnun hefði ekki formlegt reglugerðarhlutverk, gæti hún refsað þeim matsfyrirtækjum sem brjóta í bága við siðareglur samtakanna.