Dómari í Ímon-málinu svokallaða segir lög hafa verið brotin þegar starfsmenn á vegum embættis sérstaks saksóknara hleruðu símtöl sakborninga og verjenda þeirra. Símtölunum var ekki fargað. Verklag við hleranir verður því endurskoðað, hjá embætti sérstaks saksóknara.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við Morgunblaðið í dag umrætt símtal hafa verið merkt til eyðingar en mannleg mistök valdið því að það var ekki gert. Embættið muni fara í innri skoðun á því hvernig verklaginu verði breytt. Ekki er ljóst með hvaða hætti það verður.

Í Morgunblaðinu segir að hleranir voru mikið notaðar á árunum 2009 og 2010 en mikið hefur dregið úr þeim frá árinu 2012. Árið 2009 voru um 20 hleranir framkvæmdar. Þær voru ríflega 70 árið 2010 og hafa þær aldrei verið fleiri. Árið 2011 fóru þær aftur niður í um 20 talsins. Úrræðinu var aðeins þrisvar beitt árið 2012 og aldrei í fyrra.