Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur sent Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra greinargerð og gögn vegna eyðingu tölvupósta sem embættið átti að afhenda úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Ráðherrann óskaði eftir gögnunum í lok ágústmánaðar. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er greinargerðin ítarleg og henni fylgdi mikið af gögnum. Lögfræðingar ráðuneytisins eru nú að fara yfir þessar upplýsingar og á meðansvo er vill ráðherra ekki tjá sig um málið.

Upphaf málsins má rekja til viðtals Jóhannesar Kr. Kristjánssonar fréttamanns við Ólaf Þór í Kastljósi í desember árið 2011. Í kjölfarið, eða snemma á árinu 2012, sendi Reimar Pétursson lögmaður erindi á grundvelli upplýsingalaga þar sem hann óskaði eftir því að fá afrit af tölvupóstum, sem hann taldi að sérstakur saksóknari hefði sent fréttamanninum.

Sérstakur saksóknari svaraði ekki erindinu og afhendi því engin gögn. Lögmaðurinn kærði þessa málsmeðferð sérstaks saksóknara til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í maí 2012 minnti nefndin sérstakan saksóknara á skyldu hans að svara erindi lögmannsins. Kysi hann að synja lögmanninum um aðgang að gögnunum óskaði nefndin eftir því að fá þau afhent sem trúnaðarmál. Ólafur Þór svaraði þessu erindi nefndarinnar en afhenti ekki gögnin. Hann sagði að upplýsingalög ættu á engan hátt við í þessu máli.

Þrátt fyrir þetta svar sérstaks saksóknara ítrekaði úrskurðarnefndin beiðni sína um að fá gögnin bæði í mars og maí á þessu ári. Sérstakur saksóknari afhenti nefndinni aldrei gögnin og í svari sem hann sendi nefndinni í júlí síðastliðnum kom fram að gögnunum hefði verið eytt og engin öryggisafrit væru til. Þar sem gögnin voruekki til gat úrskurðarnefndin ekkitekið afstöðu til þess hvort embættinu bæri lagaleg skylda til að afhenda tölvupóstana og var málið því fellt niður þann 16. ágúst síðastliðinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .