Skekkja í verðbólguálagi er með betri dæmum um þau skaðlegu áhrif sem höft á fjármagnsflutninga til og frá landinu hafa á skilvirkni innlendra fjármálamarkaða. Sérstakur iðnaður hefur skapast í kringum það að hagnast á höftunum, sem meðal annars hefur afleiðingar fyrir verðmyndun verðbólguálags skuldabréfa.

Þetta segir í fréttabréfi Júpiters rekstrarfélags. Þar kemur fram að á síðustu vikum hefur dregið saman með fimm og tíu ára verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði. Ástæðan er einna helst hækkun fimm ára álagsins. Það skýrist aðallega af mikilli sókn í íbúðabréfaflokkana HFF14 og HFF24, sem mynda fimm ára verðtryggða vísitölu OMX.

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa verðtryggð skuldabréf á skemmri endanum verið vinsæl áhöld til að flytja ódýran gjaldeyri úr landi (en leyfilegt er að taka höfuðstól og vaxtaafborganir íbúðabréfa úr landi á gengi Seðlabanka Íslands, á meðan mögulegt er að kaupa sömu fjármálagerninga með aflandskrónum). Af þessum sökum hafa áðurnefndir flokkar íbúðabréfa verið keyptir af miklum krafti síðastliðna mánuði og misseri, sem ýta kröfunni á fimm ára verðtryggðri vísitölu OMX niður og auka þannig bilið á móti fimm ára óverðtryggðu vísiölunni. Ekki er ólíklegt að þessi þróun haldi áfram og að fimm ára verðbólguálag haldist hátt, meðal annars af þessum sökum.“

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku hvernig erlendir aðilar hafa getað farið úr landi með vaxta- og höfuðstólsgreiðslur af íbúðabréfum, og keypt aftur aflandskrónur fyrir gjaldeyrinn.

Júpiter segir að hagnaðurinn sem myndast verði til á kostnað skattgreiðenda, sem fjármagna rekstur Seðlabanka Íslands. Það felst meðal annars í niðurgreiðslum á gjaldeyri.

„Á síðastliðnum 12 mánuðum hefur gengi HFF14 hækkað um ríflega 13% (e. clean price). Viðskipti með flokkinn hafa verið heldur stopul, enda engin viðskiptavakt á söluhlið. Líklegt má telja að þeir sem leitast við að stunda högnun á gjaldeyrishöftum muni því næst snúa sjónum sínum að næsta flokk, HFF24, sem hefur hækkað um 9,2% á síðastliðnum 12 mánuðum,“ segir í fréttabréfinu.

Fréttabréf Júpiters .