Mál tengd sparisjóðunum eru meðal þeirra sem eru til rannsóknar hjá embætti Sérstaks saksóknara. Kom þetta fram í viðtali við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann sagði að í dag séu um 120 mál til rannsóknar hjá embættinu og að tæplega 40 mál til viðbótar séu í greiningu, sem sé eins konar for-rannsókn. Þá eru 30 mál á biðlista. Það sem af er þessu ári hafa embættinu borist 47 mál og aðspurður sagði Ólafur að um þriðjungur þeirra væri tengdur hruninu. FME hafi verið að klára að senda sín mál til saksóknara og þá séu slitastjórnir enn að senda mál til embættisins.

Hann segir að embættið sé búið að fá töluvert af málum sem varði sparisjóðina og að sum þeirra séu býsna flókin og óárennileg. Minnti hann í þessu sambandi á að Sparisjóðirnir hafi margir fallið nokkuð eftir stóra hrunið og hafi verið teknir yfir fram á árið 2010. Má ætla af orðum hans að málin sem um ræðir varði fallna sparisjóði en ekki þá sem enn standa, en þó er erfitt að fullyrða um það.

Eins og greint hefur verið frá þá komu tvær stórar ákærur frá embættinu í síðustu viku sem varða markaðsmisnotkun í Kaupþingi og Landsbankanum. Ólafur segir að stórt markaðsmisnotkunarmál sem varði Glitni sé til rannsóknar, en sú kæra hafi borist embættinu síðar en hinar tvær. Það má sé tiltölulega stórt að umfangi og ekki sé hægt að fullyrða hvort ákært verður í málinu og þá hvenær.