Verklok verða í að minnsta kosti 10 stórum málum fyrir áramót hjá embætti sérstaks saksóknara. Málin tengjast öll hruninu og flest föllnu bönkunum, samkvæmt upplýsingum frá embættinu.

Þegar rannsókn mála er lokið hjá sérstökum saksóknara er tekin ákvörðun um hvort málatilbúnaður sé nægilega líklegur til að leiða til sakfellingar. Sé svo fara málin í ákæruferli. Ráðgert er að rannsókn fjölda mála ljúki síðan á fyrri helmingi næsta árs.

Þegar efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra var rennt inn í embættið í byrjun september fylgdu því 86 mál. Um tugur mála bættist síðan við í september vegna þess að skattayfirvöld og skiptastjórar þrotabúa vísuðu gjörningum sem þeir töldu ekki standast lög til frekari rannsóknar.

Um 90 virkar rannsóknir eru nú í gangi hjá embætti sérstaks saksóknara. Þær eru misjafnlega umfangsmiklar. Sérstakir hópar eru skipaðir um ákveðin mál. Þeir styðjast síðan við verkefnastjórnunarkerfi sem býr til ramma utan um rannsókn hvers máls. Samkvæmt þessu verkefnastjórnunarkerfi á rannsókn að minnsta kosti 10 mála að ljúka fyrir áramót og samkvæmt upplýsingum frá embættinu er sú áætlun talin raunhæf.

Flest málin sem klárast á næstu vikum tengjast starfsemi föllnu bankanna, Kaupþingi, Landsbanka og Glitni.