Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, hefur verið ákærður fyrir meiri háttar brot á skattalögum. Það er embætti sérstaks saksóknara sem ákærði Bjarna í desember í fyrra fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2007 til 2009 og vantalið fjármagnstekjur upp á rúmar 200 milljónir króna af gjaldmiðlaskiptasamningum, vaxtatekjum og arði af erlendum hlutabréfum og komið sér undan því að greiða rétt rúmar 20 milljónir króna.

Mál embættis sérstaks saksóknara gegn Bjarna var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar síðastliðinn og mætti Bjarni við þingfestinguna.

Í ákæru embættisins sem vb.is er með undir höndum er krafist refsingar yfir Bjarna en allt að sex ára dómur getur legið við brotum af þessu tagi. Verði hann svo fundinn sekur um brot á 1. málsgrein 109. greinar laga um tekjuskatt getur hann átt yfir höfði sér fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn. Hún verður þó aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni.